Íbúar hjólhýsabyggðarinnar à Laugarvatni, sem verið er að rífa niður, segjast sorgmæddir og niðurbrotnir og hyggjast leita réttar síns. Um fimmtíu ára leigusamningi hefur verið rift og íbúum gefinn frestur til loka september til að pakka saman.
„Eins og að koma inn á stríðssvæði“
Hjólhýsabyggðin hefur haft leigusamning við sveitarfélagið síðustu 50 ár. Að mati þess var ekki unnt að tryggja öryggi fólks í byggðinni nema með umtalsverðum kostnaði, sem sveitarfélagið taldi ekki réttlátt að standa undir. Honum hefur því verið rift og íbúar eru farnir að tínast burt - gegn vilja sínum.
Guðlaugur Stefán Pálmason er einn þeirra. „Hér er náttúrulega gamalt fólk sem hefur verið hér mun lengur en við og það er bara í algjöru niðurrifi og rusli og mikið um þunglyndi og ég held bara svei mér þá að þetta hefur áhrif á heilsu fólks. Ef þið færuð inn á svæðið þá sæuð þið sorginu og eymdina sem er þarna og þetta er eins og að koma inn á stríðssvæði.“
Flutningarnir stórtjón fyrir íbúa
Móðir Guðlaugs, Elín Þorvaldsdóttir, hefur verið með hjólhýsi í byggðinni síðustu tólf ár.
„Þetta er afahús. Við vorum afi og amma sem keyptum þetta,“ segir Elín og bendir á skilti við inngang hjólhýssins. Hún segir að tjónið sé mikið og kostnaðasamt sé fyrir hana að flytja.
„Pallurinn og hjólhýsið og húsið sem ég keypti og lét setja upp, þetta eru um þrjár milljónir og svo kostar örugglega um milljón að koma þessu í burtu og ef þetta er allt ónýtt þá er þetta auðvitað stórtjón og ég er bara orðin gömul kona, áttræð, ég hef ekki miklar tekjur.“
Nú þarft þú að pakka saman, hvernig leggst það í þig og hvaða tilfinningar kvikna hjá þér?
„Þetta er bara ömurlegt. Ég held að ég verði bara þunglynd af þessu. Ég er ekkert lík sjálfri mér lengur.“
„Maður er bara niðurbrotinn maður“
Jón Þór Helgason var að pakka saman 20 árum af vinnu.
„Þetta er bara ömurlegt. Maður er bara niðurbrotinn maður. Gjörsamlega búinn á því. Rífa allt sem maður er búinn að byggja upp.. og bara minningar og allt hérna. “
-Og þú ert strax byrjaður að pakka?
„Já ég fékk bara hótun í dánarbúið; Þú skalt bara þrífa núna einn tveir og bingó. Komdu þér burt annars gerum við eitthvað í þessu. Það er mánuður síðan ég jarðaði konuna mína.“
Hvað stóð í þessu bréfi? „Bara hreinsa og koma sér burt. Ég fengi einhverja tíu daga fyrst, og svo yrði lokað fyrir rafmagnið og skellt í lás hérna.“
Segir illa komið fram við íbúana
Fyrir marga er það hægara sagt en gert að taka niður allt sitt eftir áratuga búsetu.
„Ég bara hef ekkert heilsu í það og bíð eftir að fá hjálp seinna í haust til að geta gert það,“ segir Sólveig Manfreðsdóttir sem hefur komið sér vel fyrir eftir 28 ár í byggðinni. Hún segir sorg yfir byggðinni.
„Margir sem hafa ekkert heilsu eða tök á því að koma sér neitt og gefur húsin sín til að hægt sé að fjarlæga þau. Þetta er mikið tap, ekki bara tilfinningalega heldur líka peningalega hjá mörgum. Það var alltaf talað um að við hefðum til áramóta en svo um daginn kemur upp að við eigum að vera farin 1. september, sem er reyndar búið að breyta núna, en það er búið að koma skelfilega illa fram við okkur. Bara mannvonska.“