Utanríkisráðherrar Lettlands og Litáens segja ekki forsvaranlegt að hleypa rússneskum ferðamönnum inn í landið. Þeir benda á að helsta leið Rússa til Evrópu núna sé að aka í gegnum Eystrasaltslöndin og Finnland.
Opinberri heimsókn forseta og utanríkisráðherra Eistlands, Lettlands og Litáens lauk í gær með heimsókn til Þingvalla, þar sem þeir nutu leiðsagnar þjóðgarðsvarðar og forseta Íslands. Öll eiga þessi lönd landamæri að Rússlandi sem reynir nú að sölsa undir sig landsvæði í Úkraínu. Þau vilja að rússneskum ferðamönnum verði bannað að koma til Evrópu og þrýsta á Evrópusambandið að koma slíku banni á.
„Nú þegar Rússar geta ekki ferðast með flugi komast þeir ekki beint til borga í Evrópu með flugi frá borgum í Rússlandi, sem þýðir að þeir keyra. Þeir keyra gegnum Eystrasaltsríkin, Pólland eða Finnland,“ segir Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens. Hann segir þetta skapa umferðarvandamál, sem geti orðið pólitísk.
Þá bendir Landsbergis á að sex milljónir manna hafi flúið Úkraínu og vinni nú tímabundið víða í Evrópu. „Sum þeirra vinna á hótelum sem selja rússneskum túristum gistingu. Að þau séu á sama stað tel ég ekki siðferðilega rétt.“
Edgars Rinkēvičs utanríkisráðherra Lettlands bendir einnig á siðferðilegu rökin fyrir þessari ráðstöfun. „Við teljum ekki siðferðilega verjandi að Rússar haldi áfram að ferðast til Evrópu, slaka á í Frakklandi, Lettlandi eða á Spáni, meðan þeir axla ekki siðferðislega ábyrgð á því sem ríkisstjórnin og meirihlutinn styður.“ Bann við rússneskum ferðamönnum myndi senda sterk skilaboð til alls rússneska samfélagsins.
Rinkevics vill líka að eignir Rússa í Evrópu séu gerðar upptækar og nýttar í þágu Úkraínu. „Ég tel að við ættum að líta á Rússland sem ríki sem styður hryðjuverk því hegðun Rússa er óviðunandi.“