Nokkuð hefur borið á því að grunnskólabörn og –unglingar hér á landi láti líða yfir sig að gamni með því að þrengja að öndunarveginum og birta svo myndskeið af því á samfélagsmiðlum. Kennari segir athæfið stórhættulegt og að mörg dæmi séu um að krakkar leggi líf sitt og limi í hættu. Hann hvetur foreldra til þess að vera á varðbergi.  

Uppátækið er ekki nýtt af nálinni en hugsanlega orðið útbreiddara en nokkru sinni fyrr vegna vinsælda TikTok. Það hefur verið nokkuð til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum  undanfarin misseri þar sem fullyrt er lögsóknum rigni yfir samfélagsmiðilinn fyrir að grípa ekki inn í. Þá er sagt að börn niður í allt að átta ára aldur hafi látist eftir að hafa tekið þátt í þessari svokölluðu áskorun, eða blackout-challenge, líkt og hún kallast.  

„Efnið sem þau eru með er yfirleitt ósköp saklaust. Það er eitt og eitt sem veldur þó nokkrum áhyggjum, bæði vegna þess að þau eru að leggja líf og limi sína í hættu og líka krakkanna sem eru í kringum þau,” segir Þórður Kristinsson, doktorsnemi í menntavísindum og kennari.  

Þórður hóf í upphafi kórónuveirufaraldursins að rannsaka hegðun og notkun ungmenna á samfélagsmiðlum. Hann segir að flestum börnum þyki notkun á samfélagsmiðlum kvíðavaldandi.

„Ég sé að þau eru öll á samfélagsmiðlum, eða langlangflest. Þau nota þetta mjög misjafnlega. Sumum finnst þetta vera kvíðavaldandi og taka of mikið rými í þeirra daglega lífi, en finnst þetta yfirleitt ómissandi,” segir Þórður. „Kannski finnst okkur fullorðna fólkinu þetta vera kjánaleg trend en þetta er aðallega gert til skemmtunar.”

Efnið á TikTok er vissulega almennt nokkuð saklaust og sýnir gleði, dans, eldamennsku og fleira. Hins vegar virkar samfélagsmiðillinn þannig að ekki allir sjá sömu myndböndin, sem gerir foreldrum nokkuð erfitt fyrir að fylgjast með því sem börnin þeirra eru að horfa á. Og sumt af því er afar ljótt.  

„Það hafa gengið nokkur trend sem ganga út á það hreinlega að kýla fólk, gelta á eftir fólki eins og var frægt fyrir tveimur, þremur vikum. Sýna alls konar fordóma - sem er eitthvað sem við viljum ekki sjá. Síðan höfum við verið að sjá sjálfskaðandi hegðun, fólk taka inn lyf og ofskammta sér lyfjum til þess að sjá hver líkamleg viðbrögð verða,” segir Þórður.  

Þessar svokölluðu áskoranir eru misgáfulegar og sumar stórhættulegar. Rétt eins og það að þrengja að öndunarveginum í þeim tilgangi að falla í yfirlið og þá var eitthvað sem kallaðist skullbreaker-áskorunin, eða höfuðkúpubrotsáskorunin, nokkuð vinsæl fyrir um tveimur árum, svo dæmi séu tekin. Þá greindi Mbl.is frá því í gær að leysa hafi þurft upp hóp grunnskólabarna á Seltjarnarnesi sem gerði sér það að gamni að láta líða yfir sig.  

Þórður bendir á að margt sé jákvætt við samfélagsmiðilinn en að foreldrar þurfi hins vegar að þekkja hann og ræða við börnin um hvernig skuli umgangast hann.  

„Við sjáum að það er töluvert stór hluti af þeim sem eru á Tiktok sem hafa byrjað áður en þau hafa leyfi til þess. Það er 13 ára aldurstakmark, sum hefur viljað sjá þetta hækka töluvert mikið vegna þess að 13 ára krakkar og yngri eru ekki með getuna til þess að vera með gagnrýninn hugsunarhátt og að herma ekki eftir allri vitleysunni,” segir hann. „Og þá þurfa foreldrar að vera duglegri að vera vinir krakkanna sinna á samfélagsmiðlum og leiða þau áfram um lendur þess. Skoða dálítið saman hvað er í lagi og hvað ekki, hvað ber að forðast og svo framvegis.”