Innviðaráðherra hefur áhyggjur af fyrirhuguðum þungaflutningum á vikri á Suðurlandi. Hann segir að ef byggja þurfi dýra innviði til að slíkur iðnaður standi undir sér sé eðlilegt að fyrirtækin sem að þeim standa greiði fyrir þá.
Þýska fyrirtækið EP Power Minerals, hyggur á efnistöku á vikri á Mýrdalssandi austan og suðaustan við Hafursey. Vikrinum verður ekið til Þorlákshafnar allan sólarhringinn þegar fyrirhuguð efnistaka hefst, þaðan sem siglt verður með hann út í heim. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af þungaflutningunum og þeim áhrifum sem þeir hafa á vegi og umferðaröryggi. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun.
„Ég tek bara undir. Ég hef áhyggjur af þessum flutningum og ég held að menn verði að skoða allar leiðir til að fara einhverja aðra möguleika ef þeir eru til.“
Nefnir hann þar að flytja vikurinn austur á Höfn og möguleikann á að þróa Landeyjarhöfn frekar og dæla vikrinum út með sérstökum búnaði. Hann segir eðlilegt að setja gjaldtöku á fyrirtækin sem standa fyrir þungaflutningnum.
„Ég held að það blasi við að ef við erum að fara í umtalsverðar framkvæmdir vegna þessa að þá er eðlilegt að sá sem nýti auðlindina greiði meira fyrir hana. Svona stórir bílar valda miklu meira álagi á vegina en það sem nemur fjölda þeirra.“
Breyta svörtum sandi í verðmæti
Sveitarstjórnir og íbúar á svæðinu hafa gert athugasemdir við verkefnið. Ráðherra segir að það verði metið heildstætt af Skipulagsstofnun og því kunni skilyrði að verða sett fyrir flutningunum á þjóðvegum Suðurlands.
Hann telur þó ýmislegt jákvætt við verkefnið hvað umhverfissjónarmið varðar, þarna sé verið að sækja hráefni, Kötluvikur í þessu tilviki, til íblöndunar í sement fyrir steinsteypu með umhverfisvænni hætti en hægt sé að gera víða annars staðar í heiminum. Verkefnið sé því framlag í baráttunni við loftslagsvána.
„Þetta er kannski það sem við munum takast á við á næstu árum, hvernig ætlum við að ná árangri í loftslagsmálum og í sumum tilvikum verður það á kostnað einhvers annars.“
Hann segir að þarna sé fyrirhugað að nýta auðlind sem talað hafi verið um í áratugi á Íslandi, Hekluvikur hafi meðal annars verið nýtt um langt skeið í sambærileg verkefni. Þetta snúist um að breyta svörtum sandi í verðmæti, sem margir hafi horft til lengi. Þarna sé komin leið til þess og á sama tíma draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum þegar til lengri tíma er litið.
Í spilaranum hér að ofan má hluta á viðtalið í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.