Héraðssaksóknari hefur ákært fimm Íslendinga í einhverjum stærstu fíkniefnamálum sem komið hafa upp hér á landi. Þeir eru í ákæru sagðir hluti af skipulögðum brotasamtökum. Tugir lítra af amfetamínbasa voru meðal annars fluttir hingað frá Hollandi, faldir í saltdreifara.
Lögregla hélt blaðamannafund um málin í júní og greindi þar frá því að þau væru á meðal þeirra umfangsmestu af þessu tagi sem hér hefðu verið rannsökuð.
Ákæran, sem gefin var út fyrr í mánuðinum og fréttastofa hefur undir höndum, varpar frekara ljósi atburðarásina. Fyrir utan fíkniefnalagabrot eru fimmmenningarnir ákærðir fyrir að starfa innan skipulagðra brotasamtaka. Málin eru í raun þrjú.
Framleiðsla á rúmlega 117 kílóum af amfetamíni
Fyrst ber að nefna framleiðslu á rúmlega 117 kílóum af amfetamíni úr 53 lítrum af amfetamínbasa sem segir í ákærunni að hafi komið til landsins með Smyril Line-skipi frá Hollandi til Þorlákshafnar í febrúar 2020, falinn í saltdreifara.
Tveir menn eru ákærðir fyrir að leggja á ráðin um þessa starfsemi í gegnum undirheimaforritið Encrochat, sem franska lögreglan braust inn í 2020 og kom svo upplýsingum í hendur íslenskra yfirvalda. Annar mannanna er hálffertugur, með tveggja ára dóm á bakinu fyrir peningaþvætti og hefur dvalið langdvölum erlendis. Hinn er athafnamaður á sextugsaldri sem var viðriðinn áberandi fíkniefnamál árið 1994. Þriðji maðurinn, tæplega sextugur ábúandi á bæ nálægt Hellu, er sömuleiðis ákærður fyrir þennan þátt. Efnin sem framleidd voru rötuðu ekki nema að mjög litlu leyti í hendur lögreglu.
Stórfelld kannabisræktun
Í öðru lagi eru athafnamaðurinn, ábúandinn og tveir aðrir ákærðir fyrir að standa að stórfelldri kannabisræktun á þessum sama bæ. Þar var lagt hald á yfir 22 kíló af kannabisefnum í maí. Einn þeirra sem þar er ákærður er Ólafur Ágúst Hraundal, áður Ægisson, sem var einn af höfuðpaurunum í stóra fíkniefnamálinu svokallaða um aldamótin og hlaut þar níu ára fangelsisdóm.
Eitthvert mesta magn fíkniefna
Í þriðja lagi er Ólafur Ágúst einn ákærður fyrir að hafa haft í fórum sínum í bílskúr í Hafnarfirði og hesthúsi í Víðidal eitthvert mesta magn fíkniefna sem lögregla hefur lagt hald á í einni aðgerð: 42 lítra af amfetamínvökva, 21 lítra af MDMA-vökva, um 6,7 kíló af MDMA-dufti, yfir 7.000 e-töflur, 1,8 kíló af metamfetamíni, 1,8 kíló af kókaíni og um 30 kíló af kannabisefnum.
Á blaðamannafundinum í júní kom fram að áætlað götuvirði allra efnanna væri um 1,7 milljarður króna. Ákæran verður þingfest á þriðjudag.