Forvitnileg nýsköpunarverkefni í þágu umhverfis er meðal umfjöllunarefna Stefáns Gíslasonar í umhverfispistli vikunnar í Samfélaginu.


Stefán Gíslason skrifar:

Nú er haustið að nálgast og það þýðir m.a. að nú er kominn tími á fyrsta umhverfispistilinn í Samfélaginu að loknum sumarleyfum. Reyndar benti einhver mér á það um daginn að haustið væri ekki fyrst að koma núna, heldur hefði það komið í hverri viku í allt sumar. En hvað sem því líður er eðlilegt að á þessum tímapunkti verði manni hugsað til helstu umhverfisverkefnanna sem takast þarf á við á vetri komanda.

Næg verkefni framundan

Umhverfisverkefnin framundan eru ekki öll auðveld, alla vega ekki verkefnin sem bíða íslenskra stjórnvalda. Síðasta föstudag kom t.d. út stöðuskýrsla verkefnisstjórnar um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum – og samkvæmt henni virðist ríkisstjórnin þurfa að hressa upp á aðgerðaáætlunina ef takast á að ná þeim markmiðum sem þessi sama ríkisstjórn hefur sett sér. Í stöðuskýrslunni er líka vísað í álit Loftslagsráðs frá 9. júní sl., þar sem fram kemur að ráðið telji markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 óljós og ófullnægjandi.

1/7 af skattgreiðslum eins manns

Í tengslum við þetta má rifja upp að á dögunum kvartaði formaður Loftslagssjóðs yfir því hversu lítið fé er lagt í sjóðinn árlega, en eins og staðan er í dag fær sjóðurinn um 100 milljónir króna til úthlutunar á ári. Hugtökin „lítið“ og „mikið“ eru afstæð, en þetta 100 milljón króna framlag má t.d. skoða í því ljósi að þrír hæstu skattgreiðendur landsins borguðu hver um sig næstum sjöfalt hærri upphæð í skatta af tekjum ársins 2021. Og 100 milljónirnar má líka skoða í því ljósi að þegar Ísland gerðist aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, svonefndu ETS-kerfi, var sett ákvæði í loftslagslög um að helmingur tekna íslenska ríkisins af sölu heimilda af þessu tagi, að frádregnum umsýslukostnaði og þess háttar, skyldi renna í Loftslagssjóð. Þetta var árið 2012, en árið 2014 var þessu breytt á þann veg að tekjurnar skyldi renna í ríkissjóð. Til að setja 100 milljónirnar í eitthvert samhengi, þá skilst mér að tekjur íslenska ríkisins af sölu losunarheimilda síðustu þrjú ár hafi verið um 10 milljarðar króna, eða um 3,3 milljarðar á ári að meðaltali. Helmingur af því er rúmlega 16 sinnum meira en 100 milljónir.

E-prize verðlaunin

En Ísland er ekki eitt í heiminum. Eitt af því sem Svíar ætla að gera snemma á vetri komanda er að veita hin árlegu og eftirsóttu E-prize verðlaun. Verkefnin sem keppa um þessi verðlaun eru jafnvel enn betur til þess fallin að auka manni bjartsýni í aðdraganda haustsins en vangaveltur um markmið íslenskra stjórnvalda og fjárveitingar þeirra til loftslagsmála.

Vindmyllur úr tré

Eitt þeirra fyrirtækja sem keppast um að fá E-prísinn er Modvion, sem þróað hefur vindmyllur úr tré, nánar tiltekið úr krosslímdum timbureiningum eða CLT. Þessar vindmyllur eru léttari en hefðbundin stál- og steypuvirki, sem þýðir m.a. að flutningskostnaður minnkar og uppsetning hárra turna verður auðveldari en ella. Auk heldur minnkar kolefnisspor framleiðslunnar um allt að 90% miðað við það sem nú er algengast. Og þessar nýju vindmyllur skila samt sem áður jafngóðu verki og þær hefðbundnu og endast jafnlengi.

Meðal þeirra sem vinna með Modvion að þessari þróun eru sænski orkurisinn Vattenfall og vindmylluframleiðandinn Vestas.

Timburafurðir í rafbúnað

Timbur kemur líka við sögu hjá Cellfion, sem hefur náð að framleiða membrur fyrir efnarafala úr nanósellulósa sem unninn er úr trjám. Membrur eru einmitt sá hluti í efnarafölum og ýmsum öðrum rafbúnaði sem er dýrastur og hefur minnsta endingu. Sellulósamembrurnar eru ódýrari en þær hefðbundnu, búnar til úr endurnýjanlegu hráefni og virka a.m.k. eins vel og þær sem hingað til hafa verið notaðar.

Trébatterí

Enn eitt fyrirtæki sem líka er komið í úrslit keppninnar um E-prize nýtir sömuleiðis skógarafurðir í vörurnar sínar. Þetta er Ligna Energy í Norrköping, sem hefur þróað tækni til að geyma orku í ligníni, sem nóg er af í trjám. Fyrirtækið stefnir að því að framleiða rafhlöður úr timbri, hvort sem um er að ræða örlitlar rafhlöður í skynjara og þess háttar eða stærri orkugeymslur fyrir raforkukerfi.

Svífandi rafbátar

Bátaframleiðandinn Candela Technology er eitt af fyrirtækjunum sem komin eru í úrslit keppninnar. Þar á bæ nýtir fólk sérstaka flugbátatækni til að framleiða rafknúna smábáta sem ganga 30 hnúta þegar allt er sett í botn og eiga að komast 50 sjómílur, eða um 90 km, á 40 kWh hleðslu, miðað við að hraðinn sé 22 hnútar eða um 40 km/klst. Bátar af þessu tagi henta einkar vel í skerjagarðinum við Stokkhólm, þar sem fólk getur skotist hljóðlaust á milli eyja í vinnuna, hlaðið bátinn við bryggju og siglt eða flogið aftur heim að kvöldi. Stefnt er að því að 30 manna rafknúin ferja, þar sem þessari tækni er beitt, sigli um skerjagarðinn í nánustu framtíð. Þarna er sem sagt verið að vinna með orkuskipti á sjó.

Spanvegir

Orkuskipti á landi eru líka eitt af viðfangsefnum verkefnanna sem keppa um E-prísinn. Fyrirtækið Elonroad hefur þróað rafvegi, þ.e.a.s. raflögn sem annað hvort er lögð á yfirborð vegarins eða fræst niður í það. Þarna er spantækni notuð til að hlaða þráðlaust farartæki sem aka um þessa vegi, eða eru þar kyrrstæð. Samkvæmt útreikningum Elonroad þurfa alls ekki allir vegir að vera útbúnir á þennan hátt til að sjá rafknúnum farartækjum fyrir nægri orku. Þannig sé nóg að rafvæða 10% af strætóleiðunum í Lundi til að almenningssamgöngur þar í bæ geti gengið á þessu rafmagni einu og sér.

Að skapa nothæfa framtíð

Úrslitahugmyndirnar eru fleiri en þær sem hér hafa verið taldar upp, eða samtals 9 hugmyndir í þremur flokkum. Allar eiga þær það sameiginlegt að geta stuðlað að betri nýtingu auðlinda og þar með bjartari framtíð fyrir börnin okkar og barnabörnin. Þess vegna eiga þær það líka sameiginlegt að auka manni bjartsýni í aðdraganda haustsins. Sama gæti eflaust gilt um margar þeirra nýsköpunarhugmynda sem liggja áfram á borði Loftslagssjóðs eftir að búið er að úthluta 100 milljón kallinum sem þar er til ráðstöfunar.

Nýsköpun gerist ekki sjálfkrafa, jafnvel þótt hugmyndin sé komin á blað. Það kostar nefnilega peninga að skapa nothæfa framtíð. En hvað skyldi kosta að gera það ekki?