Huggulegheitin eru í aðalhlutverki í Undiröldunni að þessu sinni þar sem vinirnir Björgvin Halldórsson og Stefanía Svavars eru á suðrænum nótum til að byrja með en síðan taka Jelena Ćirić og Markéta Irglová við og nota inniröddina. Anton og Jökull Logi eru með jazzinn á lás en síðan æsast leikar með lögum frá þeim Snny, Katrínu Myrru og pönkhljómsveitinni Firringu.


Björgvin Halldórsson og Stefanía Svavars – Allt sem ég vil

Björgvin Halldórsson hefur sent frá sér lagið Allt sem ég vil, sem hefur á sér suðrænt yfirbragð. Til liðs við sig fær Björgvin Stefaníu Svavars en þau eru miklir vinir og vön að vinna saman. Lagið verður að finna á plötu sem er fyrirhuguð á næsta ári.


Jelena Ćirić – Rome

Söngvaskáldið Jelena Ćirić gefur út smáskífu sína Rome á morgun. Jelena hefur verið búsett í Reykjavík undanfarin ár og gefið út hjá íslenska útgáfufyrirtækinu Paradís Sessions. Rome er fyrsta lagið sem heyrist af komandi þröngskífu hennar, Shelters two, en sú fylgir eftir frumraun Jelenu, Shelters one, sem kom út 2021 og hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í flokki þjóðlagatónlistar auk þess sem Jelena var tilnefnd sem söngkona ársins.


Markéta Irglová – My Roots Go Deep

Tónlistarkonan Markéta Irglova hefur sent frá sér plötuna Lila, sem er hennar þriðja sólóplata, en hún er þekktust fyrir samstarf sitt við Glen Hansard í sveitinni Swell Seasons þar sem hún hefur unnið Óskarsverðlaun og fengið tvær tilnefningar til Grammy-verðlaunanna. Á nýju plötunni er að finna lagið My Roots Go Deep þar sem Markéta stingur sér á dýptina í sjálfskoðun.


Anton, Jökull Logi – Appelsína

Pródúserinn Jökull Logi Arnarsson og pródúserinn og klarínettleikarinn Anton (sem er listamannsnafn) sendu frá sér lagið Appelsína síðastliðinn föstudag í samvinnu við plötuútgáfuna Lofi Jazz Records. Þetta er fyrsta lagið sem þeir félagar gefa út saman.


Snny – Model home

Tónlistarmaðurinn Snny hefur sent frá sér lagið Model Home. Snny er frá Bandaríkjunum en búsettur hér á landi. Þetta er annað lagið sem hann sendir frá sér af væntanlegri plötu sem hann hefur unnið að undanfarin tvö ár.


Katrín Myrra – Hausinn tómur

Tónlistarkona Katrín Myrra sendi frá sér þröngskífuna Hausinn tómur síðastliðinn föstudag. Hún inniheldur fimm dansvæn rafpopplög og þar á meðal titillagið Hausinn tómur þar sem hún semur lag og ljóð.


Firring – Ekki gleyma vörunum þínum

Hljómsveitin Firring er ný pönk- eða síðrokksveit ættuð af höfuðborgarsvæðinu. Lagið Ekki gleyma vörunum þínum er þeirra nýjasta trix og er kraftmikill og hressandi óður til hins síðkapítalíska neyslusamfélags.