Gísli Örn Garðarsson virðist hafa sótt í þennan brunn í danssenu í sjónvarpsþáttunum Verbúðinni í fyrra. Innblásinn af fótafimi Össurar Skarphéðinssonar og hársveiflu Steingríms Hermannssonar og sjálfsmeðvituðum og settlegum dansi Ólafs Ragnars Grímssonar.
„Getur kona sem dansar svona verið við völd?“
Það er því ekkert nýtt að stjórnmálamenn stígi dans en hvað gerir dans Sönnu Marin frábrugðinn? Hún er ekki meðvitað að reyna að koma vel fyrir frammi fyrir myndavélum fjölmiðla heldur bara fyrir sjálfa sig og vini sína, hún leyfir sér að sleppa sér, vera sexý, dansa eins og hálfviti. Sanna Marin er ekki stíf í mjöðmum eða vandræðalegur miðaldra karl sem ímyndarráðgjafar hafa ráðlagt að stíga dans. Sanna Marin er 36 ára og lætur reglulega sjá sig á tónlistarhátíðum og skemmtistöðum. Og þó að hún sé formleg í sínum embættisstörfum hefur hún gaman af að skemmta sér á djamminu eftir að vinnu lýkur. „Ég varði kvöldinu með vinum, dansaði og söng, kannski dálítið villt jú,“ hefur hún viðurkennt. „Ég vona satt að segja, og vona að það sé ekki óskhyggja; við búum við lýðræði og kjósendur ákveða hvaða augum þeir líta okkur, þeir eiga allan rétt á því; að árið 2022 sé í lagi fyrir manneskju, jafnvel í þeirri valdastöðu sem ég er í, að dansa, syngja og verja tíma með vinum sínum. Ég tel ekki neitt rangt við það,“ segir Sanna Marin.
Það er eiginlega ómögulegt að setja þetta í annað en feminískt samhengi og álykta að ástæðan fyrir fárinu sé einfaldlega sú að hún sé ung myndarleg kona sem dansar kynþokkafullan og já, kannski dálitið villtan dans. Eitthvað sem kemur mörgum í opna skjöldu, því litið hefur verið á þetta tvennt sem andstæður; ungar myndarlegar konur sem dansa á munúðarfullan hátt og svo valdamesta fólkið í samfélaginu. Getur kona sem dansar svona verið við völd, spyrja varðmenn feðraveldisins og enduróma tvíhyggju líkama og hugar. Getur líkami sem hreyfir sig svona innihaldið skýra rökhugsun, spyrja þeir. Konur á Norðurlöndum og víðar um heim eru eðlilega hneykslaðar á gagnrýninni og á síðstu dögum hafa sumar þeirra byrjað að birta myndbönd af sér í trylltum dansi á samfélagsmiðlum með myllumerkinu samstaða með Sönnu #solidarity with sanna.
Kristján Guðjónsson flutti pistil sinn í Lestinni á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.