Lögregla hefði ekki getað komið í veg fyrir voðaverkið á Blönduósi um helgina, að mati Birgis Jónassonar lögreglustjóra á Norðurlandi vestra. Hann biðst afsökunar á að hafa upplýst um dauðsföllin áður en tókst að láta alla ættingja vita.
Lögregla hafði afskipti af byssumanninum fyrir fjórum vikum og ákvað í kjölfarið að taka af honum öll hans skotvopn og setja byssuleyfissviptingu í ferli. Lögreglustjórinn segir að hann hafi þá ekki verið grunaður um beinan refsiverðan verknað.
„Það laut ekki að einhverjum grun eða að það væri neitt hægt að sjá það fyrir að viðkomandi væri að fara að drýgja neina refsiverða háttsemi,“ segir Birgir sem ræddi málið á fundi með fréttafólki síðdegis.
Heldurðu að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta? Ganga lengra í að stoppa þennan aðila?
„Við teljum það ekki vera, það er vegna þess að lögreglan getur ekki haft eftirlit með hinum almenna borgara nema það sé grunur um refsiverða háttsemi, við getum ekki haft eftirlit með fólki undir þeim formerkjum að það sé líklegt til að fremja einhvern refsiverðan verknað eða afbrot,“ segir Birgir.
Hann segir þetta snúast um gildi á borð við einstaklings- og athafnafrelsi og töluvert mál sé að grípa inn í slíkt. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að við látum ekki af slíkum gildum, þrátt fyrir atburði af þessu tagi,“ segir Birgir og bætir við: „Ég tel að lögregla hafi að sjálfu sér gert allt rétt, ég held að það sé bara í rauninni aldrei hægt að koma í veg fyrir svona atvik, nokkurn tímann.“
Biðst afsökunar
Birgir segist þó hafa gert ein mistök, þegar honum tókst ekki nógu vel að hafa samband við alla ættingja áður en hann gaf út tilkynningu um andlátin í upphafi. „Ég get ekki annað en bara beðið þetta fólk afsökunar. Ábyrgðin er mín, mér þykir þetta miður og ekki annað að gera en að læra af þessu.“
Dómsmálaráðherra hefur boðið herta skotvopnalöggjöf og Birgir er sammála um mikilvægi þess. „Við þurfum líka að huga að eftirlit, ég held að það sé nokkuð ljóst og síðan að huga að forvörnum og fræðslu og hinum félagslega þætti. Ég held að við ættum að skoða allt í sambandi við þetta,“ segir Birgir.
Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn mála af þessu tagi, lögum samkvæmt, en ekki lögreglustjóraembættið á Norðvesturlandi.
Ertu ánægður með að þetta sé staðan?
„Ég er ekki sammála því að rannsókn þessara mála eigi að vera í höndum annars lögreglustjóra, nei ég er ekki sammála því,“ segir Birgir.
Lögreglan á Norðausturlandi hefur verið spör á upplýsingar um rannsóknina og sagði í tilkynningu síðdegis að það væri vegna rannsóknarhagsmuna. Lögreglan telur sig hafa grófa mynd af því sem gerðist en margir þættir málsins eru enn óljósir.
Í spilaranum hér að ofan er hægt að horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum og hér að neðan er hægt að horfa á lengri útgáfu af viðtalinu við Birgi.