Raforkuverð í Suður-Svíþjóð hefur aldrei verið hærra en nú. Forsvarsmenn stjórnmálaflokka keppast við að lofa aðgerðum bæði í bráð og lengd; til að lækka kostnað landsmanna strax í vetur og tryggja aukna raforku í framtíðinni. Viðbúið er að raforkuverð hækki talsvert til viðbótar á næstu mánuðum, þegar vetur sverfir að.
Ástæðurnar eru nokkrar. En fyrst og fremst stafar þetta af erlendum áhrifnum. Verð á gasi er mjög hátt í Evrópu. Og sunnan Eystrasaltsins er gas notað til að framleiða rafmagn, sem þess vegna er líka mjög dýrt. Raforkuverð í Svíþjóð er svo tengt raforkuverði í Evrópusambandinu, þannig að hærra gasverð á meginlandinu leiðir til hærra raforkuverðs í Svíþjóð.
Frá Svíþjóð er líka mikið rafmagn flutt út — mest allra landa í Evrópusambandinu. Ef gas verður áfram dýrt eða hækkar enn í verð, þá getur rafmagn í Svíþjóð orðið mjög dýrt í vetur.
„Margt veltur á því hvernig gasverðið þróast. Ef orkukreppan í Evrópu harðnar þá fáum við enn hærra raforkuverð þar sem verðið hjá okkur er beintengt álfunni,“ sagði Johan Sigvardsson, sérfræðingur hjá raforkufyrirtækinu Bixia við sænska ríkisútvarpið. Verðið geti fari upp í jafnvirði 150 íslenskra króna, kílóvatttíminn. Á Íslandi er verð til heimila um 8–9 krónur íslenskar. Einn tuttugasti, um það bil.
Verð tvöfaldast á tveimur árum
Miklar verðhækkanir sjást greinilega í heimilisbókhaldi sænskra heimila enda hefur rafmagnsverð í Suður-Svíþjóð tvöfaldast á síðustu tveimur árum. Rafmagn fyrir uppþvottavélina kostar nú ríflega 800 krónur á mánuði. Og að fara í sturtu er ekki beint ókeypis. Rafmagn fyrir slíkan lúxus kostar jafnvirði 2.300 íslenskra króna á mánuði, samkvæmt útreikningum sænska ríkissjónvarpsins.
Viðbúið er að þetta verði svo allt miklu dýrara þegar vetrar. Raforka verði jafnvel tvöfalt dýrari en síðasta vetur, sem þó var metár. Þá er ótalinn gríðahár kostnaður við að hita upp heimili sem kynt eru með rafmagni. Sænskir fjölmiðlar ræddu í fyrra við fólk sem hafði hætt að kynda heimili sín, þrátt fyrir kalt veður, vegna þess að það var hreinlega of dýrt.
Raforkuverð orðið að kosningamáli
En hvað er þá til ráða?
Nú þegar tæplega þrjár vikur eru til kosninga í Svíþjóð, keppast stjórnmálaflokkarnir við að lofa lausnum. Þeir vilja lækka skatta á rafmagn, afnema flutningsgjald, niðurgreiða raforku, eða láta ríkið greiða nær allan kostnað við framkvæmdir sem gætu minnkað rafmagnsnotkun, til dæmis með því að bæta einangrun húsa.
Eða, aðskilja raforkumarkaðinn í Svíþjóð frá útflutningsmarkaði — svo að raforkuverð þar sé ekki háð sveiflum erlendis.
En svo er alls óvíst hver þessara áforma eru framkvæmanleg. Fyrir það fyrsta þurfa forsvarsmenn flokkanna auðvitað að koma sér saman um málamiðlanir eftir kosningar — eitthvað sem meirihluti verður fyrir á sænska þinginu. En svo er Svíþjóð líka í Evrópusambandinu. Ekki er víst að tillögur um niðurgreiðslur eða takmarkanir á útflutningi samræmist lögum og reglum sambandsins.
Þetta á til dæmis við um tillögu núverandi ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins, um að nota arð af rekstri dreifikerfisins til að greiða niður háan raforkukostnað landsmanna. Sérfræðingar sem Svenska dagbladet ræddi við, segja að samkvæmt ESB megi slíkar niðurgreiðslur aðeins fara til fólks sem eigi í vandræðum með að greiða rafmagnsreikninga. Ekki auðugra heimila sem til dæmis noti rafmagn til að hita upp sundlaug utandyra.
Til lengri tíma vilja sænskir stjórnmálaflokkar svo auka vindorku og aðra endurnýjanlega raforkuframleiðslu; styrkja dreifikerfið; og sumir hverjir auka á ný rafmagnsframleiðslu með kjarnorkuvinnslu.
Allt er þetta þó svokölluð framtíðarmúsík. Og í vetur, má gera ráð fyrir að raforka verði áfram rándýr.
Margir eru því þegar farnir að búa sig undir hita hús sín með öðrum hætti. Anders Larsson sem selur eldivið nærri Halmstad, hér á vesturströnd Svíþjóðar, hefur aldrei haft jafn mikið að gera.
„Eftirspurnin hefur verið gríðarleg. Fólk hamstrar hreinlega. Ég fæ upp í hundrað símtöl á dag.“