Vladimír Pútín nýtir sér jaðarheimspeki og öfgakenndan hugmyndaheim miðalda til þess að réttlæta innrásina í Úkraínu, sýndarsögu um að á hinum rússneska evrasíska landmassa hafi sprottið upp sérstök siðmenning Rússa, að sögn Jóns Ólafssonar, sérfræðings í málefnum Rússlands og Úkraínu.
Jón sem er prófessor við Háskóla Íslands, segir að lýsa megi Alexander Dugin, sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti sæki hugmyndafræði að miklu leyti til, sem eins konar kristnum talibana.
Daria Dugina, dóttir Dugins, sem lengi hefur verið náinn samverkamaður Pútíns, lét lífið þegar öflug sprengja sprakk í bifreið hennar skammt utan við Moskvu á laugardag.
Hún var á ferðalagi með föður sínum og til stóð að þau yrðu samferða heim. Þess vegna er talið að árásin kunni að hafa beinst að Dugin. Sprengjunni hafði verið komið fyrir undir bílstjórasætinu og talið að Dugina hafi látist samstundis.
Greint hefur verið frá því að rússneska leyniþjónustan, FSB, haldi því fram að Úkraínuher beri ábyrgð á dauða Duginu og árásinni á bifreið þeirra feðgina.
Dugina var vinsæl blaðakona og hægrisinnaður þjóðernissinni með sambærilegar skoðanir og faðir hennar, einarður stuðningsmaður Pútíns og hvatakona að innrásinni í Úkraínu.
Kristinn talibani
Jón Ólafsson, sem var í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, segir að með nokkurri einföldun megi lýsa Dugin sem eins konar kristnum talibana. Hann aðhyllist jaðarkenningar og öfga um pólitíska heimsskipan, þar sem kristin siðmenning er ríkjandi.
Dugin hafi verið talsmaður svokallaðs Evrasisma, sem gangi út á það að á hinum rússneska evrasíska landmassa hafi sprottið upp sérstök siðmenning, þar sem Rússar séu fremstir í flokki.
„Þetta eru svona blendingskenningar, tíndar saman úr alls konar heimspeki, þar á meðal þessari venjulegu vestrænu heimspeki, en síðan farið aftur á miðaldir og þær hugmyndir hafnar upp, sem og ákveðinn lífsmáti. Sérstaklega þetta siðmenningarhugtak,“ segir Jón.
Menningarlegur og trúarlegur sýndarvefur
Jón segir þetta það sem Pútín hafi apað eftir Dugin, þessa orðræðu og þennan sögulega, menningarlega og trúarlega vef sem Pútín hafi síðan notað óspart til að réttlæta innrásina í Úkraínu.
„Dugin er pólitískur jaðarmaður, ég man eftir honum sjálfur frá því snemma á 10. áratugnum, þegar þetta var sérvitringur á jaðri þjóðernishreyfinganna með alls konar hugmyndir sem grasseruðu í því umhverfi sem Rússland var á 10. áratugnum en engum datt í hug að myndu hafa einhver áhrif á pólitík eða stjórn ríkisins.“
Hann segir að síðan hafi orðið samfélagsleg umbreyting og stjórnvöld fært þessar jaðarhugmyndir inn í meginstraum stjórnmálanna.
Rússneskt samfélag sé því fast í viðjum hugmynda fortíðar, meðal annars hvað frjálslyndi, jafnrétti kynjanna og réttindi samkynhneigðra varðar. Tortryggni hafi myndast gagnvart fólki sem kýs að lifa eftir öðrum gildum og viðhorfum en þeim stjórnvöld tefli fram.
Leyfi til þess að ofsækja fólk
„Það sem gerist þegar stjórnvöld taka upp svona íhaldssamar hugmyndir, sem byggjast á einhverri tilbúinni hefð og halda því fram að þetta sé hið rétta, er að þar með er ýtt undir slík viðhorf í samfélaginu. Það þýðir að gefið er leyfi til þess að ofsækja fólk sem er öðruvísi,“ segir Jón og bætir við að þetta eigi sérstaklega við samkynhneigða og hinsegin fólk en hóparnir séu miklu fleiri.
„Það er alls konar kynþáttahatur og ofsóknir af því tagi sem grasserar í rússnesku samfélagi. Og við sjáum hvað gerist þegar stjórnvöld keyra stefnu, sem er svona mannfjandsamleg, líkt og Pútínstjórnin hefur gert, að þá virkjast öfl í samfélaginu sem að annars væri haldið í skefjum.“
Hann segir að Íslendingar ættu að reyna að líta þetta frá eigin sjónarhóli. „Ef stjórnvöld á Íslandi myndu fara að predika eitthvað svona, þá myndi samfélagið bregðast allt öðruvísi við. Við myndum þá allt í einu kannski ekki sjá þennan mikla samhug í sambandi við hinsegin fólk og að fólk eigi að fá að vera eins og það vill.“
Í spilaranum hér að ofan má hlusta á viðtalið við Jón Ólafsson í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.