Dómsmálaráðherra segir að líklega verði aldrei hægt að koma í veg fyrir voðaatburði eins og á Blönduósi, en að efla þurfi lögreglulið á landsbyggðinni og flytja verkefni þangað.
Unnið er í samvinnu þriggja ráðuneyta að betrumbótum í málefnum fanga og geðheilbrigðisþjónustu, segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
„Í sjálfu sér ótengt þessum hörmulega atburði á Blönduósi þar sem samúð okkar liggur með öllum þeim sem eiga um sárt að binda; samfélaginu og öðrum sem eiga um sárt að binda eftir þetta mál, þá eru stjórnvöld búin að vera í virku samtali um hvernig við getum meðhöndlað þessi mál almennt í okkar samfélagi. Margt gott hefur verið gert á undanförnum árum. Ég nefni til að mynda geðheilbrigðisteymi sem er samvinnuverkefni fangelsismálayfirvalda og heilbrigðisyfirvalda sem að hefur gjörbreytt allri læknismeðferð og meðferð á föngum sem eiga í erfiðleikum,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Hann segir að nú sé að fara í gang uppbygging í fangelsinu á Litla Hrauni til að bæta þjónustu við fanga. Hann segir dóms-, félagsmála- og heilbrigðisráðuneyti hafa unnið saman að þessum verkefnum. Þingmál hafi verið lögð fram og verði lögð fram aftur í vetur.
„Eðli máls samkvæmt eru þetta mjög viðkvæm mál, hversu langt er gengið á hverjum tíma og þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og reyna þá að vinna að víðtækri sátt í samfélaginu um úrræði sem að þessu snúa. Og ekki síst þurfum við að huga auðvitað að fyrirbyggjandi úrræðum í þessum efnum.“
Komið hefur fram að skotárásarmaðurinn, sem ráðinn var bani á Blönduósi, hafi átt í andlegum erfiðleikum og hafi notið geðheilbrigðisþjónustu. Lögreglan á fáliðuð í Húnabyggð og heyrir undir Lögregluna á Norðurlandi vestra, sem er með höfuðstöðvar á Sauðárkróki.
„Það er auðvitað alltaf spurning hvenær lögreglan er í stakk búin til að takast á við svona hörmulega atburði þar sem að margt spilar inn í. Og í mannlegu samfélagi verður kannski aldrei komið í veg fyrir alla voðaatburði.“
Ráðherra segir unnið hafi verið að því í ráðuneytinu hvernig efla megi lögregluliðin á landsbyggðinni til að þau séu betur í stakk búin til að takast á við alvarlega atburði. Það gerist ekki nema að samhliða verði að færa önnur lögregluverkefni út á land. Þetta eigi líka við sýslumannsembættin og dómstólana.
„Að fjölga starfsmönnum en þá þurfa líka verkefnin að fylgja þannig að þetta fólki hafi þá önnur störf til að sinna í dags daglegu starfi.“