Framkvæmdarstjóri nýsköpunarfyrirtækisins Köru Connect segist hafa fengið vægt áfall þegar hún frétti af því að embætti landlæknis hafi kært fyrirtækið. 

Kærunefnd útboðsmála hafði úrskurðað Köru Connect í vil í máli gegn embættinu sem varðaði útboð á þjónustu með tæknilausnir í heilbrigðisgeiranum, lausnir á borð við lyfjagáttina Heilsuveru, kerfið Sögu og annað kerfi sem kallað er Hekla. 

Í tilkynningu sem embætti landlæknis sendi frá sér í gær segir að embættið harmi mjög að þurfa að kæra Köru Connect. Það hafi frekar viljað kæra úrskurðinn sjálfan, enda telur embættið mikla galla á honum og málsmeðferð kærunefndarinnar. Lög geri hins vegar ráð fyrir því að allir málsaðilar séu kærðir svo úrskurði geti verið hnekkt, þess vegna hafi embættinu verið nauðugur einn sá kostur að kæra Köru Connect. 

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Köru Connect, segir það vera fyrirslátt í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

„Það er þeirra ákvörðun að það borgi sig að kæra lítið frumkvöðlafyrirtæki, til þess að fá einhverjar skýrari línur frá hinu opinbera um hvernig þau eigi að bjóða út eða hvort þau eigi að bjóða út. Mér finnst þetta því miður bara lykta af því að þau vilji ekki bjóða út, vilja bara halda áfram í þessum leik að gera þetta bara sjálf."

Fá nýsköpunarfyrirtæki þrífist við þessar aðstæður

Þorbjörg segir einnig að það sé mjög erfitt fyrir lítið fyrirtæki að fá kæru í sínar hendur frá hinu opinbera. Hún hafnar því að kæran sé ekki persónuleg enda sé verið að sniðganga Köru Connect sem frumkvöðlafyrirtæki í heilbrigðisgeiranum á Íslandi. Geira sem hún segir að fari minnkandi vegna þess hve stjórnvöld draga lappirnar með að bjóða út hin ýmsu verkefni.

„Ég hugsa að þetta stöðvi þróun og nýsköpun í heilbrigðisumhverfinu. Ég held að það séu nú þegar þannig, að það sé mjög lítið af fyrirtækjum sem þrífast hérna út af þessu ástandi. Þess vegna er þetta líka sorglegt óháð okkur," segir Þorbjörg Helga og bætir við:

„Fyrir mér er þetta mjög einfalt. Það er verið að tefja eða stöðva kröfu um að þurfa að bjóða út."

Viðtalið við Þorbjörgu Helgu í Morgunútvarpinu má heyra í spilaranum að ofan.