Líkur á að flugvöllur í Hvassahrauni verði fyrir tjóni eða truflunum vegna eldsumbrota í nánustu framtíð hafa aukist að mati eldfjallafræðinga. Icelandair hefur hætt við áform um að flytja þjónustu sína á nýjan millilandaflugvöll í Hvassahrauni og vill innanlandsflugið áfram í Vatnsmýri. Sérfræðingar segja varaflugvöll fyrir millilandaflug nauðsynlegan á Suðvesturhorni landsins en kostnaður við byggingu hans verði vart réttlætanlegur nema hann sinni einnig innanlandsflugi eða millilandandaflugi.

Frá því að gos hófst í Fagradalsfjalli í fyrra hafa æ fleiri lýst yfir efasemdum um að Hvassahraun sé heppilegasta staðsetningin fyrir nýjan innanlandsflugvöll í stað Vatnsmýrar í Reykjavík, líkt og nefndir sérfræðinga hafa komist að niðurstöðu um. Ríki og borg hafa gert með sér samkomulag um að flugvöllurinn skuli fara úr Vatnsmýri þegar nýtt flugvallarstæði, að minnsta kosti jafngott, hefur fundist.

Hvassahraun var úrskurðað besta staðsetning fyrir nýjan flugvöll og byggðist það meðal annars á því mati að ekki væru líkur á því að gjósa myndi í nágrenni flugvallarins næstu aldirnar. Eldsumbrotin á skaganum hafa hins vegar kippt stoðum undan þeim forsendum - því eins og jarðvísindamenn hafa bent á er Reykjanesskaginn kominn inn í gostímabil sem varað geta í tvö til fjögur hundruð ár.

Mesta ógnin við flugvöll í Hvassahrauni er gos í Krýsuvíkurkerfinu og þó svo að það sé ekki rumskað nú, heldur næsta kerfi við, Fagradalsfjall, telja jarðvísindamenn að með því séu líkur nú meiri á að Krýsuvíkurkerfið fari af stað.

Hraun geti runnið yfir flugvöllinn

Eldfjallafræðingar við Háskóla Íslands hafa unnið hraunrennslislíkan fyrir Reykjanesskaga og nýttu það til að skoða fyrir Kastljós hvaða áhætta tengd eldsumbrotum væri á því að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Líkanið var fengið með því að tölvukeyra mörg þúsund möguleg gos í gegnum líkindareikniforrit þar sem byggt er á upplýsingum um hvar líklegt er að geti gosið á þessu svæði.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að samkvæmt því sé flugvallarstæðið inni á svæði þar sem hraun getur runnið yfir. „Þetta er breyttur veruleiki og líkurnar á að hraun fari yfir þetta svæði í náinni framtíð hafa aukist verulega,“ segir Þorvaldur. Þó svo að ekki sé víst að það muni gerast - geti það gerst. „Svo er bara spurningin náttúrulega líka, hvaða áhættu erum við tilbúin til þess að taka? Erum við tilbúin að byggja stór mannvirki á svæði sem hugsanlega geta farið undir hraun á næstu árum, eða áratugum eða árhundruðum, og setja þessa fjárfestingu, og hugsa þetta þannig: það gerist örugglega ekkert hér á næstu áratugum, þetta verður allt í lagi. En hvað ef það svo gýs á morgun?“ spyr Þorvaldur.

Hann bendir jafnframt á að við verðum að horfast í augu við að eldgos á Reykjanesskaga muni valda truflunum næstu tvö til fjögurhundruð árin. „Og eftir því sem við höfum stærri og mikilvægari innviði nálægt hugsanlegum gosstöðvum, því meiri áhrif munu þessi eldgos hafa á þá innviði. Svona ef maður horfir á það frá þeim sjónarhóli þá væri kannski betra að hafa það aðeins lengra frá,“ segir hann.

Icelandair hætt við Hvassahraun

Icelandair, sem dregið hefur vagninn hvað varðar hugmyndir um uppbyggingu nýs alþjóðaflugvallar í Hvassahrauni, hefur nú hætt við þau áform enda hafi ISAVIA tilkynnt um hundrað og fimmtíu milljarða fjárfestingu á Keflavíkurflugvelli á næstu árum.

Forstjóri Icelandair segir Reykjavíkurflugvöll nýtast vel sem varaflugvöll en segir að óvissa um hvort og þá hvenær flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri, líkt og ríki og borg hafa gert samkomulag um, komi í veg fyrir nauðsynlega uppbyggingu þar.  „Að okkar mati ætti að hætta því að þrengja frekar að þessum velli hér þannig að millilandaflugið geti nýtt hann sem varaflugvöll áfram fyrir Keflavík og hann geti verið samgöngumiðstöð okkar Íslendinga út á landshlutana,“ segir Bogi.

Varaflugvöllur á SV-horninu nauðsynlegur

Þorgeir Pálsson, fyrrverandi flugmálastjóri, fór fyrir nefnd um öryggishlutverk Reykavíkurflugvallar sem skilaði skýrslu árið 2017. Hann segir niðurstöðu þeirrar vinnu hafa sýnt fram á nauðsyn þess að hafa varaflugvöll fyrir millilandaflug á suðvesturhorni landsins. Ástæðan er fyrst og fremst tvíþætt, veðurfarsleg og kostnaðarleg. Að vetri til í norðlægum áttum kemur sú staða reglulega upp að lendingar eru ekki mögulegar á Egilsstöðum og Akureyri og ennfremur munu allar millilandavélar þurfa að bera auknar eldsneytisbirgðir ef varaflugvöllur er ekki í boði á suðvesturhorninu, að því er fram kemur í skýrslu Þorgeirs.

Eyjólfur Árni Rafnsson verkfræðingur fór fyrir nýjasta starfshópi um Reykjavíkurflugvöll, sem skilaði skýrslu árið 2019 þar sem þrír möguleikar fyrir innanlandsflug voru greindir: nýr innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni, uppbygging í Vatnsmýri og flutningur innanlandsflugs á Keflavíkurflugvöll, sem talinn var sístur. Hann segir enn möguleika á að byggja upp í Vatnsmýri en þörf hafi verið talin á frekari rannsóknum í Hvassahrauni, hvað varðar eldgosavá og veðurskilyrði. Þær rannsóknir hafa verið í gangi á vegum Veðurstofu Íslands í tvö ár og er gert ráð fyrir frumdrögum áhættumats vegna eldgosavá í september og veðurrannsóknum lýkur um áramót. Eyjólfur vill bíða með að fella dóm um Hvassahraun fyrr en þær niðurstöður verða birtar. Hið sama hafa ráðherrar og núverandi og tilvonandi borgarstjóri sagt - að ekki verði tekin ákvörðun um flugvöll í Hvassahrauni fyrr en áhættumat liggur fyrir.

Þarf líka að nýtast fyrir innanlands- eða millilandaflug

Í umræðunni um eldgos, Keflavíkurflugvöll og Hvassahraun hefur ýmsum tillögum verið varpað fram um mögulega staðsetningu nýs varaflugvallar. Þingmaður Framsóknarflokksins vildi skoða Mýrarnar norðvestur af Borgarfirði, Byggðaráð Skagafjarðar sagði í bókun að Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók sé augljós kostur fyrir millilandaflugvöll og margir hafa einnig bent á Suðurlandið sem ákjósanlega staðsetningu fyrir flugvöll þar sem þar sé mesti ferðamannastraumurinn. Eyjólfur segir að erfitt sé að réttlæta kostnað við byggingu nýs varaflugvallar nema hann verði einnig notaður sem innanlands- eða millilandaflugvöllur.  „Að fara í varaflugvöll einan og sér, með enga aðra notkun, það er mjög dýr kostur sem yrði erfitt að útskýra að fara í,“ segir Eyjólfur.