„Svo vaknarðu morguninn eftir með bláa kórónu á náttborðinu og 200 blaðsíðna samning,“ segir Unnur Birna fyrrverandi alheimsfegurðardrottning. Hún tók þátt í íslensku keppninni fyrir ömmu sína en gerði sér litla grein fyrir hvað fælist í því ef hún skyldi vinna aðalkeppnina.
Sautján ár eru síðan Unnur Birna Vilhjálmsdóttir varð heimsfræg þegar hún var krýnd fegursta kona heims. Hún segir allt gott af sér og fjölskyldu sinni að frétta þrátt fyrir að lítið hafi frá henni heyrst undanfarin ár. „Það er allt eins og það á að vera, brjálað að gera á öllum vígstöðvum hvort sem það er heimili með fullt af börnum eða í vinnu,“ segir hún. Unnur Birna á fjögur börn og hefur starfað við ýmislegt tengt lögmennsku í gegnum árin. Hún ræddi við Friðrik Ómar og Atla Má í Félagsheimilinu á Rás 2 og svaraði 22 spurningum sem enginn vill svara.
Opnaði margar dyr og tækifæri
Unnur Birna segist ekki setja það á ferilskrána að hún hafi verið Ungfrú heimur. „Þetta nýttist mér ekki beint inn í kannski lögfræðina og þau störf sem ég svo sækist eftir í tengslum við hana en auðvitað opnaði þetta rosalega margar dyr árin á eftir og á meðan þessu stóð,“ segir hún. „Ég gerði rosalega margt sem hefði ekki staðið mér til boða nema þetta hefði orðið raunin.“ Hún sjái ekki eftir því að hafa tekið þátt.
Unnur Birna starfaði í sjónvarpi um hríð bæði hér heima og erlendis, lék í tveimur kvikmyndum og sinnti einstaka fyrirsætuverkefnum. „En ég var meira í samstarfsverkefnum, þar sem ég tók að mér að vera talskona og koma fram fyrir stærri vörumerki. Ég var hrifnari af þannig verkefnum.“
Hún valdi iðulega séríslensk vörumerki sem henni fannst þess virði að hengja sig við og nefnir Bláa lónið, Icelandic Glacial Water og skyr. „Ég var aldrei í svona almennum fyrirsætustörfum, hvorki áður né eftir.“
Tók þátt til að heiðra minningu ömmu sinnar
Hún rifjar upp af hverju hún tók þátt í keppninni en hún var lengi ákveðin í að gera það ekki. Móðuramma hennar var kjólameistari og saumaði kjóla fyrir þátttakendur keppninnar í tugi ára. Sem ung stúlka sat Unnur Birna oft í saumastofu ömmu sinnar og fór með henni í gegnum allt ferlið.
„Hún alveg elskaði þetta, lifði fyrir þessa keppni og fannst þetta alveg toppurinn.“ Á þessum tíma var keppnin stór hluti af íslensku samfélagi og fyrirferðarmikil. „Mamma var náttúrulega í þessu á sínum tíma líka, af svipuðum ástæðum og ég. Mér var sem sagt ýtt í þetta af ömmu, og mömmu líka.“ Hún hafi neitað að taka þátt nokkrum sinnum. „Ég sagði bara nei, ég hef ekki áhuga á þessu. Þetta er ekki eitthvað sem ég ætla að gera.“
Í janúar 2005 lést amma hennar og þá ákvað hún að taka þátt og heiðra minningu hennar. „Ég skelli mér í þetta og fann kjól sem hún hafði saumað og var í honum. Svo bara rúllar þetta alla leið,“ segir hún. „Þetta er alveg grundvöllurinn að þessu öllu hjá mér. Þetta var ekki eitthvað sem ég stefndi að eða ætlaði að gera en auðvitað er þetta partur af minni fjölskyldusögu.“
„Svo vaknarðu með bláa kórónu á náttborðinu“
Unnur Birna bjóst alls ekki við að ná svona langt í keppninni en segist alltaf hafa verið til í að fara út og taka þátt. „En auðvitað þegar maður fer út þá veit maður raunverulega ekkert hvað það þýðir ef maður vinnur,“ segir hún. „Svo vaknarðu morguninn eftir með bláa kórónu á náttborðinu og 200 blaðsíðna samning um hvað þú ert að fara að gera næsta árið og hvað þú færð borgað. Það er ekkert rúm til að hætta við.“
Líf hennar var sett í hálfgerða gíslingu á meðan þessu stóð og þurfti hún til að mynda að fresta námi sínu í lögfræðinni sem hún var byrjuð í.
„Ég fékk ekkert endilega að vita með miklum fyrirvara hvenær og hvert ég væri að fara. Ég held ég hafi farið hátt í 40-50 ferðir um allan heim á þessu ári.“ Samtökin sem reka Miss World Limited í Bretlandi fengu borgað fyrir að senda Ungfrú heim á alls kyns viðburði til að vekja athygli og fór hún því víða. „Þetta var ekkert slæm vinna en í rauninni var lífi manns smá hijackað.“
„Ég veit að mörgum þykir þær ekki fallegar en ég er mjög ánægð með þær“
Unnur Birna svaraði 22 spurningum sem enginn vill svara og kemur þar fram að hún eigi það eftir að synda nakin í sjó. „Ég er rosa vinnusöm og mig langar að segja að ég má ekkert aumt sjá, ég er mjög bónfús og oft einum of,“ segir Unnur Birna aðspurð um helstu kosti sína. „Sem dæmi, ef það er týndur hundur í Garðabæ þá stoppa ég bílinn og tek hann upp í og finn eigandann, annars líður mér bara illa.“
Hún segist sjaldan vera í þeim aðstæðum að hún ætli sér með ásetningi að heilla einhvern upp úr skónum en þyrfti hún að gera það myndi hún horfa í augun á fólki, taka það inn og vera almennileg.
Hennar fallegasti líkamspartur segir hún vera tærnar á sér. „Af því að ég veit að mörgum þykir þær ekki fallegar og óheppilegar. En ég er mjög ánægð með þær,“ segir hún. „Þær eru svolítið krepptar og þær eru svolítið frægar, þetta eru svona ættartær,“ bætir hún við og hlær.
Fullkomnunarbrjálæði og ofsaskipulag
Óréttlæti reitir Unni Birnu til reiði en það er ekkert sem hún sér hrikalega eftir. „Auðvitað væru einhverjar ákvarðanir eða einhver samskipti sem maður myndi vilja breyta þegar ég lít til baka,“ en það sé ekkert eitt sem komi upp í hugann.
„Manninum mínum finnst ég stundum borða svolítið hátt,“ segir Unnur Birna þegar spurt er að hvað sé mest óþolandi í fari hennar. „Ekki endilega smjatt en hann bara skilur ekki hvernig ég get brutt með svona hávaða. Hann yrði örugglega ósáttur ef ég myndi ekki segja þetta,“ segir hún. „En það er líka smá svona fullkomnunarbrjálæði í mér og svolítið ofsaskipulag stundum og einhver ofhugsun.“
Hefur ekki þörf fyrir að búa annars staðar
Unnur Birna segist óttast mest að hún eða einhver nákominn henni missi heilsuna og það versta við Ísland er veðrið. Hins vegar sé ekkert sem geti toppað Ísland á góðum degi. Hún hafi ferðast víða og prófað að búa erlendis í lengri tíma, til að mynda á Indlandi í tvo mánuði og rúmlega hálft ár í Kína. „Ég get orðað það þannig að ég hef ekki þá þörf að vilja prófa að búa annars staðar. Ég sé alveg hvað það er gott að vera á Íslandi,“ segir hún.
Rætt var við Unni Birnu Vilhjálmsdóttur í Félagsheimilinu á Rás 2. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.