Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir eðlilegt að gera kröfur til þjóðarleiðtoga en ekki megi gleyma því að þeir séu líka fólk. Ekki sé ástæða til að ætla annað en að Sanna Marin, kollegi hennar frá Finnlandi, sé fullfær um að sinna starfi sínu þótt hún sletti öðru hvoru úr klaufunum.

Myndband af Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, að dansa og skemmta sér með vinum sínum fór í dreifingu í netheimum í síðustu viku. Fljótlega fór að bera á gagnrýni. Sumum þótti hegðun hennar ekki sæma forsætisráðherra og hún var jafnvel grunuð um að hafa neytt fíkniefna. Sá orðrómur var kveðinn í kútinn í dag þegar niðurstöður úr fíkniefnaprófi, sem Sanna Marin undirgekkst um helgina, voru birtar. Engin fíkniefni fundust.

 

„Mér finnst þetta ansi hörð gagnrýni. Hún er forsætisráðherra en hún á sér líka líf. En ég held að stóra myndin sé sú að auðvitað er eðliegt að gera kröfur til þjóðarleiðtoga en við verðum líka að muna að þjóðarleiðtogar eru fólk,“ segir Katrín Jakobsdóttir. 

„Í þessu tilviki er ekkert annað á ferð en kona, sem vill svo til að er forsætisráðherra, er bara líka að skemmta sér og dansa og syngja.“

 

Þótt mikið hafi verið rætt og ritað um meinta hneykslun á framgöngu Sönnu Marin, virðist hneykslunin ekki sérlega útbreidd. Í það minnsta ekki ef marka má Finna sem teknir voru tali á götu úti í dag.

„Þetta er óþarfa uppistand; til dæmis hafa miðaldra karlar hagað sér á alveg sama hátt,“ segir Eli Kojola íbúi í Tampere. Og undir það tekur Jori Korkman, eldri borgari í Helsinki. Sanna Marin hafi skilað góðu starfi og það sem hún gerir í frítíma sínum varði ekki almenning.

Fjöldi kvenna hefur deilt myndskeiði af sér í kröppum dansi á samfélagsmiðlum til stuðnings Marin, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.