Lögreglan hefur sérstaklega til rannsóknar hvernig andlát skotárásarmannsins sem banaði einum á Blönduósi í morgun bar að. Ekki er grunur um að skotvopni hafi verið beint að árásarmanninum eða að hann hafi notað skotvopn til að svipta sig lífi. Tveir eru í haldi lögreglu. Rannsókn lögreglunnar lýtur meðal annars að því hvort þeir tengist andláti árásarmannsins.

Lögreglunni á Norðurlandi vestra barst tilkynning klukkan hálf sex í morgun að skotvopni hefði verið beitt gegn tveimur í heimahúsi á Blönduósi. Annar var látinn þegar að var komið en hinn særður, árásarmaðurinn fannst einnig látinn á vettvangi. Hinn slasaði var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur, alvarlega særður. Lögreglan getur ekki staðfest hve margir voru á heimilinu þegar árásin var gerð. Tveir voru handteknir.

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, segir að ekki liggi grunur um að skotvopni hafi verið beint að árásarmanninum en til rannsóknar sé hvernig andlát hans bar að. Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með þá rannsókn. Banamein árásarmannsins liggur ekki fyrir.

Birgir getur ekki staðfest hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim tveimur sem eru í haldi. Það er ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra sem fer með rannsókn málsins.

Lögreglan hafði afskipti af árásarmanninum fyrir nokkrum vikum vegna vopnatilviks. Í framhaldi tók lögregla í sína vörslu skotvopn sem viðkomandi var skráður fyrir. Maðurinn er með byssuleyfi.

Óðinn Svan Óðinsson, fréttamaður RÚV, er á Blönduósi og ræddi við Birgi. Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.