Gísli Eyjólfsson, fyrirliði Breiðabliks, segir liðið hafa þurft að hafa fyrir hlutunum gegn HK í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld. 1-0 sigur nægði þó Blikum sem mæta Víkingi í undanúrslitum.
„Þetta var virkilega erfiður leikur, við vissum að HK-ingarnir myndu koma bara vel stemmdir og vel gíraðir, þetta er alltaf gaman í svona Kópavogsslag,“ sagði Gísli í viðtali beint eftir leik í kvöld. HK-ingar skoruðu mark á síðustu andartökum leiksins en það var dæmt af vegna rangstöðu. „Sem betur fer fór það (flaggið) á loft, þeir voru að herja á okkur hérna í lokin en sem betur fer datt þetta með okkur.“ Gísli segir liðið hafa þurft að hafa fyrir fyrsta, og eina marki leiksins, en það kom ekki fyrr en á 55. mínútu.
„Þeir voru vel þéttir til baka og við þurftum að hafa okkur alla við til að fá þetta mark. Því miður kom ekki seinna markið til að ganga frá þessu þannig þeir voru alltaf inni í leiknum en sem betur fer þá dugði eitt mark í dag.“
Andstæðingarnir sem bíða Blika í undanúrslitunum eru Víkingar en liðin mættust nýverið í Bestu deildinni og gerðu þá 1-1 jafntefli. Gísli segir það geggjað að fá að mæta Víkingum aftur fljótlega en leikurinn verður spilaður 31. ágúst eða 1. september. „Þetta eru skemmtilegustu leikirnir að spila á móti hörkugóðum liðum þannig við erum spenntir og það er gott að fá heimaleikinn, okkur líður vel þar.“ Gísli vildi þó ekkert segja til um hvort sömu boltasækjarar yrðu á Kópavogsvelli þá og voru síðast þegar liðin mættust en þá skapaðist mikil umræða um áhrif þeirra á leikinn. „Maður gerir allt til að vinna,“ bætti hann við að lokum.
Viðtalið við Gísla má sjá í heild sinni í spilaranum hér efst á síðunni.