Leikhúsgagnrýnandi Víðsjár, Eva Halldóra Guðmundsdóttir, rýnir í einleikinn The Women Who Rode Away sem sýndur er í Tjarnarbíói.


Eva Halldóra Guðmundsdóttir skrifar:

Ég hef lengi verið hrædd við það að vera kölluð fyrirmynd. Aðallega vegna hvatvísi minnar og tilhneigingar til að láta margt út úr mér sem eftir á að hyggja var ekkert það gáfulegasta. Eða vegna þess hversu hávær ég er. Eða hreinlega vegna þess að ég geri mistök dagsdaglega sem koma mér í alls konar óheppilegt klandur. Fyrirmynd er nefnilega ábyrgðarhlutverk og verandi kona er mér kennd ábyrgð frá blautu barnsbeini. Samfélagið segir mér að ég eigi að elska börn, kunna að ala þau upp, sjá um mann, vera snyrtileg, falleg og að sjálfsögðu mjó því þú getur jú auðvitað ekki verið falleg ef þú ert feit. Á mínum unglingsárum skammaðist ég mín óskaplega fyrir það eitt að vera ég sjálf. Ég var lítil fitubolla með rauðar kinnar sem gekk um í smellubuxum með stutt hár sem fór mér alveg gasalega illa. Ég var athyglissjúk og elskaði að láta fólk hlusta á mig. Guði sé lof fyrir mína nánustu og að ég sé komin í útvarpið. Ég þráði ekkert heitar en að passa í gullinsnið anorexíusjúklingsins og geta gengið um í magabolum og lágum Diesel-gallabuxum. Að vera dularfull og seiðandi við það eitt að segja ekki neitt. En af hverju fannst mér svona sársaukafullt að vera með krúttlega bumbu, frekjuskarð og freknur? Hvernig orsakast það að tólf ára stelpa á Íslandi finnur til þegar Marissa Cooper kemur á skjáinn í The OC? Allir eiga sinn sársauka, hvað þá á unglingsárunum þegar allt sem maður gengur í gegnum er dramatískt. 

Síðastliðið föstudagskvöld skellti ég mér að sjá mína fyrstu leiksýningu á þessu leikári í Tjarnarbíói. Sýningin heitir á frummálinu The Women Who Rode Away eða í lauslegri þýðingu minni: Konurnar sem riðu á brott. Verkið er frumsaminn einleikur eftir Nataliu Zukerman. Í verkinu blandar hún saman ýmsum listformum sem hún vinnur með í sínu eigin lífi. Ásamt því að vera virkilega fær gítarleikari, laga- og textasmiður er hún myndlistarkona og leikkona. Verkið er eins konar þroskasaga Nataliu þar sem hún segir áhorfendum sögu sína með því að segja sögur þeirra kvenna sem hafa haft hvað mest áhrif á hana og, eins og hún segir í upphafi verksins, ruddu brautina. Inn á milli flytur hún frumsamin lög í þjóðlagastíl innblásin af áhrifum kvennanna.

Verkið hefst á því að Natalia segir frá flutningum sínum til Nýju-Mexíkó á unglingsárunum. Myndmenntakennari hennar kynnir hana fyrir myndlistarkonunni Georgiu O'Keeffe. Við það eitt að fræðast um þessa merkilegu konu kynntist Natalia sjálfri sér sem kraftmikilli, ungri, hinsegin listakonu. Þrátt fyrir ungan aldur vissi hún strax að hún tengdi við Georgiu. Við það eitt að heyra um konu sem hún tengdi við urðu til töfrar. Hún fékk örlítið meira rými innra með sér til að vera hún sjálf. Margar konur koma við sögu í verkinu. Sumar þekkti ég, eins og Bell Hooks, Audre Lorde og fleiri en öðrum fékk ég að kynnast í frásögn Nataliu eins og ljóðskáldinu Ednu St. Vincent Millay, tónlistarkonunni Rosettu Tharpe og kankan-dansaranum Jane Avril. En í bland við þessa brautryðjendur fáum við líka að kynnast ömmu Nataliu, myndmenntakennara hennar og kærustu. Brautryðjendur þurfa vissulega ekki að vera frægir til að hafa áhrif. Fyrirmyndir og þau sem móta líf okkar koma úr öllum áttum.

Kira Simring, leikstjóri verksins, náði að skapa einlæga og fallega frásögn með Nataliu Zukerman. En ég saknaði nálægðar við Nataliu sjálfa. Verkið er virkilega lágstemmt en skortir blæbrigði í frásögninni. Natalia er fær tónlistarkona, flutti lögin sín af mikilli snilld og það skein af henni sjálfstraust og ró. En af einhverjum ástæðum fann ég til fjarlægðar við leikkonuna og þar af leiðandi verkið. Leikmyndin samanstendur af lágum palli sem á standa stóll, lítið hliðarborð, gítarar Nataliu og stórar trönur sem á situr hvítur strigi. Á meðan Natalia segir frá lífi sínu birtast myndir eftir hana á striganum og á milli þeirra eru kaflaskil verksins skrifuð út á strigann í myndhönnun Gertjan Houben. Natalia stígur ekki niður af pallinum fyrr en í síðasta laginu í lok verksins og þá loksins upplifði ég örlítið meiri kraft. Hrynjandi verksins var meira eins og fyrirlestur en leikverk. Mér fannst saga Nataliu skemmtileg en frásögnin var of einsleit. Lög hennar voru falleg en öll of keimlík. Það gerði það að verkum að mér fannst verkið of langt en samt langaði mig að vita meira. Taktur verksins olli togstreitu innra með mér því mér finnst það merkilegt og mikilvægt en bara ekki nægilega skemmtilegt. Einnig missa þau af tækifærum til að hreyfa við áhorfendum tilfinningalega vegna skorts á krafti og litbrigðum í frásögninni.

En eins og áður sagði er þessi lágstemmda sýning með mikilvæg skilaboð. Nú þurfum við að læra af sögunni og létta á sársauka þeirra sem eru markvisst jaðarsett. Verkið The Women Who Rode Away bendir á mikilvægi þess að fjölbreytileiki samfélagsins sé endurspeglaður. Það að kynnast sögu Georgia O'Keeffe breytti heimsmynd Nataliu á unglingsárunum. Það opnaði augu hennar fyrir því að til væru konur sem elska aðrar konur þar sem hún hafði haldið fram hjá með konum. Natalia nefndi í verkinu að kennarinn hennar hafði kynnt hana og samnemendur hennar fyrir konum sem hún heyrði svo ekki nefndar aftur fyrr en hún tók áfanga í femínískum fræðum á háskólastigi. Hvers vegna þarf hinsegin kona að fara í háskóla til að læra um og kynnast sínum fyrirmyndum? Á unglingsárunum erum við í stöðugri leit að viðurkenningu og einhverjum sem er eins og þú. Því er ekki skrýtið að Natalia hafi heillast svona gífurlega af Georgiu O’Keeffe verandi hinsegin unglingur í samfélagi sem verðlaunar allt heterónormatívt. Það hefur örugglega verið ómetanlegt að fræðast um konu sem braut ósýnilegar reglur samfélagsins óspart til að vera hún sjálf.

Litla Eva með sína bjöguðu líkamsmynd hefði virkilega þurft á því að halda sjá einhvern, bara einhvern, í The OC sem hún hefði getað samsamað sig við. Ímyndið ykkur ef hávær, feit, flippuð og góðhjörtuð stelpa hefði fengið rými í The OC. Það hefði breytt miklu fyrir margar dúllur eins og mig sem gerðu það eitt að hata líkama sinn. Ég get því ekki ímyndað mér hvernig það hefði verið fyrir hinsegin manneskju að sjá einhvern áþekkan sér endurspeglaðan án þess að vera gerðan að steríótýpískum aukakarakter. Fjölbreytileiki og fyrirmyndir eru mikilvægar. Sérstaklega í heimi þar sem menn eins og Andrew Tate fá að móta huga ungra karlmanna og spreða kvenfyrirlitningu sinni og hómófóbíu. Meðan slíkir fá rými fremst á sviðinu er mikilvægt að við tökum í taumana og tryggjum að fjölbreytileikinn fái rými í samfélaginu. Við sem erum ekki hinsegin þurfum að vera viss um að hinsegin fólk fái rými og verði ekki enn jaðarsettara. Hlusta á þarfir þeirra og leita okkur að fróðleik og vitneskju. Það eru svo margir búnir að ryðja brautina en samt fær fjölbreytileikinn ekki það rými sem hann á skilið. Við verðum að gera betur. Nú er komið að okkur að vera fyrirmyndir.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir flutti leikhúsrýni sína í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV hér.