Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs segir að skoða þurfi tillögu um biðlistabætur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi út frá kostnaði og jafnræði. Ljóst sé að kostnaðurinn geti hlaupið á milljörðum. Meirihlutinn kynnti sex tillögur í hádeginu til að bregðast við leikskólavanda í borginni. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að tillögurnar dugi ekki til.

Viðtöl við Einar Þorsteinsson og Hildi Björnsdóttur fylgja í heild sinni með fréttinni.

Biðleikskóli ræðst af áhuga foreldra

Einar vonast til að hægt verði að opna bráðabirgðaleikskóla í Korpuskóla á sex vikum. Skólinn stendur auður. Þar sé hægt að opna pláss fyrir 150 börn takist að manna skólann. „Þetta ræðst af áhuga foreldra á að fara með börnin þangað. Þetta yrði einhvers konar biðleikskóli meðan önnur úrræði sem eru í pípunum, meðan þau koma til með að opna. Ég vona að það væri hægt að opna Korpuskóla á sex vikum, við verðum að vinna hratt en það er líka bara krafa um það.“

Meðal tillagna meirihlutans er að opna ævintýraborgina við Nauthólsvík mánuði fyrr og flýta aðlögun barnanna þar. Auk þess að hækka niðurgreiðslur til barna hjá dagforeldrum og auka stofnstyrki. Engar fjárhæðir voru nefndar á fundinum.

„Þetta er ekki nóg“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að tillögur meirihlutans dugi ekki til og komi of seint. „Við tökum auðvitað öllum tillögum opnum hug. Við erum reiðubúin að skoða allt en þetta er ekki nóg. Við þurfum að skoða fleiri lausnir. Barneign er að aukast gríðarlega á næstu árum og vandinn mun bara aukast ef við förum ekki að horfa með skapandi hætti á það hvernig við ætlum að leysa leikskólavandann,“ segir Hildur.

Biðlistabætur þurfi að rýna út frá kostnaði

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stungið upp á biðlistabótum til foreldra. „Ein tillagan sem foreldrum hugnast og hafa tekið vel í er að greiða biðlistabætur með þeim börnum sem eru orðin 12 mánaða og fá ekki plássin sem þeim eru lofuð, það er auðvitað engin lausn en ákveðin málamiðlun. Við höfum líka lagt til að við höfum verið að skoða nýjar lausnir í leikskólamálum.“

Einar segir flókin álitaefni fylgja tillögunni. Fatlað fólk bíði líka eftir lögbundinni þjónustu og viðbúin að þau myndu líka gera kröfu um biðlaun. „Leikskólaþjónustan er ekki lögbundin. Það er alveg klárt að þau sem biða eftir þjónustu fatlaðs fólks munu koma í kjölfarið og biðja um þetta. Það þarf að útfæra þetta og rýna út frá jafnræðissjónarmiðum, út frá umfangi kostnaðar, Þetta mun fljótt hlaupa á milljörðum. Ég er þeirrar skoðunar í grunninn að við ættum að einbeita okkur að því að eyða þessum biðlistum.“