Hilmar Örn Jónsson, sleggjukastari, kastaði 76,33 metra í undanriðli sleggjukastsins á EM í frjálsíþróttum í morgun. Kastið var sjöunda lengsta kast undankeppninnar og hann er því kominn áfram í tólf manna úrslit sem fara fram annað kvöld. Hilmar segist ánægður með kast dagsins en er þó ekki hissa á því að vera kominn inn í úrslitin.

Hilmar kastaði þriðja lengsta kasti undanriðils A og eftir að keppni lauk í undanriðli B er ljóst að kast Hilmars var sjöunda lengsta kast undankeppninnar. „Ég held að þetta sé nokkuð öruggt, ég er þarna þriðji úr fyrri riðli og nú er það bara að bíða,“ sagði Hilmar í viðtali beint eftir keppni í morgun. 

„Ég byrjaði frekar illa, eða svona, á ekkert spes kast en fann samt að það var nóg inni í því. Svo bara fór ég og talaði við þjálfarann minn aðeins, við fórum yfir málin og svo bara þurfti ég að framkvæma betri köst og ég reyndi það þarna í annarri og þriðju tilraun og þriðja fór lengst.“

Hann segist strax hafa fundið fyrir því að kastið væri gott, það hafi verið létt og þægilegt eins og bestu köstin eru yfirleitt. Hann er þó ekki hissa á því að vera kominn í úrslit á sínu fyrsta Evrópumóti.

„Ég svo sem svona vissi að ég myndi gera þetta, ég var eiginlega búinn að vita það í allan morgun þannig ég bara þurfti að framkvæma. Ánægður en ekki hissa,“ bætir Hilmar við. 

Tímabilið hefur verið ágætt hjá Hilmari hingað til og hann segist sjálfur vera nokkuð ánægður með það. Nú þurfi hann bara að fókusa aftur fyrir úrslitin annað kvöld og segist líklegt að hann taki æfingu seinni partinn eða í fyrramálið. Tólf keppendur verða í úrslitum í sleggjukastinu, allir fá að kasta þrisvar en svo fá átta bestu að kasta þrisvar í viðbót og Hilmar segir það ekki galið að stefna þangað. „Ég meina ég hugsa að svipuð vegalengd verði í topp átta og ég kastaði í dag þannig bara aftur að reyna framkvæma eins góð köst og ég gerði í dag og þá er það alveg raunhæft.“

Viðtal við Hilmar Örn má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.