Hjólreiðakonurnar Hafdís Sigurðardóttir og Silja Rúnarsdóttir kepptu í dag í tímatökum á EM í hjólreiðum sem hluti er af Meistaramóti Evrópu sem fram fer í München. Silja var á sínu fyrsta stórmóti og segir frumraunina hafa verið erfiðari en hún gat ímyndað sér.

„Maður var alveg búin að ímynda sér að þetta yrði erfitt miðað við hita, fyrsta stórmót og brautina,“ segir Silja í viðtali eftir keppni. „En þetta var erfiðara en ég gat ímyndað mér en líka bara geggjað,“ bætir hún við en Silja ræsti fyrst þeirra 29 kvenna sem tóku þátt. Hún segir það hafa verið upplifun að standa og bíða eftir því að komast af stað með myndavélar á sér og brautina fyrir framan sig. „Fólk vissi hvað maður hét, það var verið að hrópa endalaust og stemmingin einstök.“ Silja endaði í 28. sæti af 29 keppendum og kom í mark tæpum fimm mínútum á eftir sigurvegaranum, Marlen Reusser frá Sviss. 

Keppni í götuhjólreiðum er næst á dagskrá hjá bæði Silju og Hafdísi en slík keppni er talsvert frábrugðin tímatökunum. „Hér er maður dálítið ein en þar er rosa mikið að gerast í kringum mann. Hraðinn verður rosalega mikill, náttúrulega reyndir íþróttamenn sem maður er að hjóla með.“ Þrátt fyrir að keppnin sé öðruvísi segir Silja samt að það þurfi að fara inn í hana með harðan haus og óhrædd við að takast á við erfiðar aðstæður í beygjum, brekkum og á miklum hraða. 

„Maður hugsar þegar maður kemur í mark bara hvað er maður að gera þetta er svo ógeðslega vont og erfitt og allt það en á sama tíma vill maður gera þetta aftur eða gerir allt sem til þarf til að fá möguleikann til þess.“ 

Hafdís Sigurðardóttir hefur keppt á stórmóti áður en hún segir upplifunina á slíkum mótum alltaf vera góða og tækifærið einstakt að fá að taka þátt, hún lauk keppni í 26. sæti.. Hafdís segir brautina hafa verið skemmtilega en hitinn á svæðinu hafi sannarlega verið krefjandi. Þær voru þó búnar undir hann, með klaka inn á sér og reyndu að vera eins mikið í skugga og þær gátu. „Þetta var staðan og við bara reyndum að vinna með það sem við höfum.“ Hafdís segist fara passlega bjartsýn inn í götuhjólreiðakeppnina sem tekur við næst en markmiðið sé auðvitað að halda í við hópinn og sækja sér reynslu í því að vera í stórum hóp. 

Viðtöl við Hafdísi og Silju má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.