Ján Kuciak og Martina Kušnírová voru myrt árið 2018. Morðin hrundu af stað mótmælum í heimalandi þeirra Slóvakíu. Ján var rannsóknarblaðamaður sem rannsakað hafði skattsvik ótal viðskiptamanna sem virtust hafa tengsl við háttsetta slóvakíska stjórnmálamenn.


Ásgeir H. Ingólfsson skrifar: 

Seint í febrúar árið 2018 fóru þau Ján Kuciak og Martina Kušnírová í kjörbúð nálægt heimili sínu. Það eru síðustu myndirnar sem náðust af þeim, það var verið að njósna um þau, og þann 21. febrúar 2018 voru þau myrt í íbúð sinni í Veľká Mača, smáþorpi ekki langt frá Bratislava, höfuðborg Slóvakíu. Þau voru bæði 27 ára og voru að skipuleggja brúðkaup sitt, tölva Martinu var frosin í tíma þar sem hún var að skoða brúðarkjóla. Í stað giftingar þurfti að skipuleggja jarðarför. 

Ján Kuciak var rannsóknarblaðamaður og vann fyrir vefmiðilinn aktuality.sk. Þar rannsakaði hann skattsvik ótal viðskiptamanna sem virtust hafa tengsl við háttsetta slóvakíska stjórnmálamenn, þar á meðal forsætisráðherrann Robert Fico og ríkisstjórn hans. Fremstur í flokki þessara viðskiptamógúla var áhættufjárfestir að nafni Marián Kočner. Við komum betur að honum á eftir. 

Slóvakía hefur ásýnd friðsæls Evrópulands og þetta var í fyrsta skipti sem blaðamaður var myrtur þar eftir að landið varð sjálfstætt. Morðið olli bylgju mótmæla, 60 þúsund manns komu til dæmis saman og mótmæltu í Bratislava, sem voru stærstu mótmæli í borginni frá Flauelsbyltingunni 1989, sem varð til þess að Tékkóslóvakía sagði skilið við kommúnismann. 

Fyrrum kollegar Kuciak vöknuðu svo sannarlega til lífsins við morðið og voru ágengir við ríkislögreglustórann Tibor Gašpar á blaðamannafundum í kjölfar morðsins. Það var augljóst að þau treystu honum ekki, enda ótal orðrómar um tengls embættisins við glæpastarfsemi. 

Þegar hann var myrtur var Kuciak að vinna að grein um 'Ndrangheta, ítölsk glæpasamtök sem höfðu komið sér vel fyrir í austurhluta Slóvakíu, þar sem þeir dunda sér við að misnota Evrópufjármagn, meðal annars í skjóli Máriu Trošková, fyrrum nektarfyrirsætu sem nú var orðin helsti ráðgjafi Fico forseta. Greinin var birt, ókláruð, þann 28. febrúar, viku eftir morðið en aðeins tveimur dögum eftir að líkin fundust. 

Seinna hélt ríkisstjórnin alræmdan blaðamannafund ásamt ríkislögreglustjóranum, þar sem hrúga af seðlabúntum, samtals milljón evrur, lágu á borðinu við hliðina á þeim. Fico forsætisráðherra lofaði hverjum sem myndi upplýsa morðið þessum fjármunum. En þetta kom í bakið á þeim, svona leikrit minnti fólk frekar á vinnubrögð mafíuforingja heldur en virðulegra stjórnmálamanna og svo fór að þann 15. mars neyddist Fico og ríkisstjórn hans til þess að segja af sér, aðeins þremur vikum eftir morðin. Mánuði síðar fór Tibor Gašpar ríkislögreglustjóri að dæmi þeirra. En morðið á Ján Kuciak og Martinu Kušnírovu var enn óupplýst. 

Samherji og Panama-skjölin 

Allt þetta og meira til kemur fram í heimildamyndinni The Killing of a Journalist, sem er dönsk-tékknesk-amerísk samframleiðsla og leikstjórinn er amerískur, þótt nafnið kunni að hljóma slavneskt. Matt Sarnecki hafði áður gert heimildamyndina Killing Pavel, um morðið á úkraínska blaðamanninum Pavel Sheremet sem var myrtur árið 2016, en þá mynd má finna í heild sinni á Youtube. Sú mynd varð til þess að fyrrum kollegar Kuciak höfðu samband við hann, sem þróaðist svo út í aðra heimildarmynd um morð á blaðamanni. 

Og þegar maður horfir á myndina leitar hugurinn helst til tveggja íslenskra fréttamála, Panama-skjalana og umsvifa Samherja í Namibíu. Aðallega af því myndin hjálpar manni að rifja upp hve Kastljós og Kveiks-þættirnir sem sýndu fyrst ofan í þessar ormagryfjur voru mögnuð heimildarkvikmyndagerð. Það er svipuð tilfinning að horfa á þessa mynd; við erum stödd í æsispennandi þriller sem er um hlutina sem er að gerast í kringum okkur, þess vegna á næsta götuhorni. Spennumynd um alla vafasömu spillinguna sem mann grunaði en hafði engar haldfast heimildir um. 

Þegar á líður fáum við örlitla svipmynd af þeim Ján og Martinu, en þau eru þó að mestu fjarri. Þetta er mynd um morðið á þeim og snýst fyrst og fremst um hvernig morðið varð til þess að spilaborgin hrundi til grunna. Við fáum í raun helst svipmynd af þeim í gegnum foreldra þeirra, sem birtast reglulega á skjánum, sem og kollega þeirra sem margir harma að hafa ekki tekið ýmis mál sem Jan var að rannsaka alvarlegar miklu miklu fyrr. 

Í lok september 2018 handtók lögreglan svo átta manns í Kólarovo, litlu þorpi í suður-Slóvakíu. Þrír þeirra handteknu voru kærðir fyrir morðið á Ján og Martinu en hinum var sleppt. Þessir þremenningar voru þeir Tomáš Szabó, Miroslav Marček og Zoltán Andruskó. Þarna var þegar búið að yfirheyra 200 manns vegna málsins, mest út frá takmörkuðum upplýsingum lögreglunnar um ökutæki morðingjanna. 

Zoltán Andruskó ákvað snemma að vinna með lögreglunni og játaði að hafa fengið tvo frændur, þá Tomáš Szabó, fyrrverandi lögreglumann, og Miroslav Marček, fyrrverandi hermann, til verksins. Það var sá síðarnefndi, hermaðurinn fyrrverandi, sem tók í gikkinn og skaut Kuciak tvisvar í bringuna og Kušnírovu einu sinni í höfuðið, áður en Szabó keyrði þá félaga í burtu. Allir áttu þeir eftir að játa og vinna með lögreglunni, en það er líka öllum ljóst að þeir eru bara peð í þessari frásögn. 

Hunangsgildra og dulkóðað spjall 

Það skiptir litlu máli hver tók í gikkinn, öllu skiptir hver er á endanum á keðjunni sem fyrirskipaði það, sá sem Kuciak hafði gert lífið leitt. Stuttu eftir handtöku mannana þriggja var svo fjórða manneskjan handtekin, Alena Zsuzsová. Að sögn Andruskó var það hún sem borgaði honum fyrir að finna menn til að myrða Kuciak – og raunar líka saksóknarana Maroš Žilinka og Peter Šufliarsky, sem og Daniel Lipšic, lögmann Kuciak-fjölskyldunnar. Blessunarlega varð ekkert úr þeim áætlunum. 

Alena Zsuzsová vann náið með einum þekktasta viðskiptamanni Slóvakíu, áðurnefndum áhættufjárfest, honum Marián Kočner. Kuciak hafði verið að rannsaka Kočner stuttu fyrir morðið og fjárfestirinn var ekki sáttur og hringdi í blaðamanninn og hótaði að grafa upp allan þann skít sem hann gæti um Kuciak og bætti við: „Ég mun einbeita mér að þér, móður þinni, föður þínum og systkynum þínum.“ Sum sé, hann hótaði að siga skæruliðadeildinni á Kuciak en ákvað svo í staðinn að myrða hann. 

Alena Zsuzsová hafði lengi starfað náið með Kočner, ekki bara við að fyrirskipa morð heldur líka sem svokölluð hunangsgildra á internetinu. Hún hafði villt á sér heimildir með því að nota myndir af ungum módelum í samskiptum við ýmsa viðskiptamenn og pólitíkusa í þeim tilgangi að safna vafasömum upplýsingum um þá fyrir Kočner. 

Þau áttu samskipti á dulkóðaða spjallforritinu Threema, þar sem þau skiptust á skilaboðum sem rannsakendur grunaði fljótlega að væru ekki öll þar sem það væri séð, hér væri önnur merking á bak við flest orð – enda voru samskiptin engan vegin rökrétt ef þau væru tekin bókstaflega. 

Kvikmyndagerðarmönnunum tekst merkilega vel að gera heim farsíma og skyldra tækja að eðlilegum hluta sögunnar, enda er það þar sem kaupin á eyrinni gerast núorðið, eyrin sjálf er tóm en spjallgluggarnir blikka endalaust með nýjum áformum. 

En það fór svo að lokum að þau skötuhjú voru sýknuð, vegna ónægra sönnunargagna. Hæstiréttur hafnaði hins vegar þeim úrskurði og sendi málið aftur til héraðsdóms. Og þar bíður það nú endurupptöku. Hæstiréttur staðfesti hins vegar 25 ára fangelsi yfir þeim Tomáš Szabó og Miroslav Marček fyrir morðið og fimmtán ára fangelsi yfir Zoltán Andruskó fyrir að fyrirskipa það. 

Málinu er því ekki enn lokið, þótt heimildarmyndin sé komin í sýningar en þó er ljóst að veldi Kočner stendur á brauðfótum, enda eru hann og Zsuzsová nú þegar að afplána dóma fyrir aðra glæpi, Zsuzsová fyrir þátttöku sína í morði á bæjarstjóra árið 2010 og Kočner fyrir skjalafals.