Áhrifavaldur sem ýtir undir ofbeldi og hatursorðræðu hefur hratt náð miklum vinsældum á TikTok. Prófessor í kynjafræði segir fulla ástæðu til að líta á þessa þróun alvarlegum augum.
Tæknivæðingin hefur ekki aðeins aukið aðgengi okkar að upplýsingum heldur líka ýtt undir upplýsingaóreiðu svo um munar. Yfir 90% Íslendinga nota samfélagsmiðla, sem er að mestu leyti óritskoðaður miðill, þar sem hver sá sem hefur áhuga eða er nægilega vinsæll, getur látið skoðanir sínar í ljós.
Grípur athygli ungs fólks
Samkvæmt könnunum Gallups nota Íslendingar samfélagsmiðilinn Facebook mest. En Z-kynslóðin, krakkar fæddir frá 1997 til 2012, eyðir mestum tíma á TikTok.
Algrímið á samskiptaforritinu TikTok þykir einstaklega grípandi, og gott í fanga athygli notandans hratt og örugglega. Sér í lagi á það við um ungt fólk, enda er það aðalneytandi samskiptamiðilsins. Algrímið byggist á útreikningum um líklegt áhugasvið notandans. Fyrirframgefnar forsendur gera það svo að verkum að forritið gerir ráð fyrir því að ákveðin áhugamál séu tengd. Því er líklegt að forritið sýni ungum stelpum sem horfa á dansmyndbönd líka myndbönd um farða og hárgreiðslu. Þannig sýnir forritið ungum strákum, alls óumbeðið, myndbönd með hinum mjög svo umdeilda áhrifavaldi Andrew Tate.
Ofbeldisfull TikTok stjarna
Hvaða Andrew, kunnið þið að spyrja.
Það er ólíklegt að lesendur hafi heyrt það nafn nefnt, nema þá kannski allra síðustu daga í samfélagsumræðunni. Þrátt fyrir það var nafn hans slegið oftar upp í leitarvél Google en nöfn Kim Kardashian og Donald Trump til samans í síðasta mánuði. Leiðin upp á stjörnuhiminninn virðist því vera mun hraðvirkari á TikTok en í raunheimum.
Andrew Tate er sem sé orðinn einhvers konar TikTok-stjarna, með milljarða áhorfa á myndbönd sín. Á myndböndunum hefur hann uppi hatursorðræðu í garð kvenna, samkynhneigðra og fleiri minnihlutahópa. Það mætti jafnvel segja að hann sé skólabókardæmi um það sem hefur verið kölluð skaðleg eða eitruð karlmennska. En Andrew sveipar ofbeldi, hörku og kvenhatur miklum ljóma.
Undirliggjandi hugmyndir í nýjum farvegi
Þarna heyrðist örstutt brot úr einu myndbandi Tate, þar sem hann lýsir því hvernig hann kemur fram við konur. Hinn þrjátíu og fimm ára sparkboxari tók þátt í raunveruleikaþættinum Big Brother í Bretlandi árið 2016 en var síðar látinn fara, vegna myndbands sem fór í dreifingu sem sýnir Tate lemja konu með belti. Stuttu seinna fór annað myndband í dreifingu þar sem Tate skipar konu að telja marbletti, af hans völdum, á líkama hennar.
Nú hefur hann gripið orðið á TikTok og efni hans fengið yfir 12 milljarða spilanna. Af hverju nær þetta efni slíku flugi? Gyða Margrét Pétursdóttir er prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands.
„Ég held að það sé gott að hafa í huga að þetta eru svona undirliggjandi hugmyndir sem finna sér þá bara alltaf nýjan farveg. Þær birtast eins og þú ert að lýsa, í þessu tilviki á TikTok, en svo þurfum við ekkert að fara langt aftur í söguna þegar við sjáum nákvæmlega sömu hugmyndir birtast á öðrum miðlum. Þannig að í rauninni má alveg segja að þarna sé ekkert nýtt sem sé að eiga sér stað. En á sama tíma, bara rétt eins og alltaf áður, er full ástæða til að vera vel á varðbergi,“ Segir Gyða.
Auðveld svör við flóknum tilfinningum
Talsverð umræða hefur skapast vegna óvæntra vinsælda sparkboxarans. Mörg lýsa áhyggjum af þeim áhrifum sem Tate kunni að hafa á þær milljónir ungmenna sem horfa á myndbönd hans. Einhver hafa sagt hann mótsvar við slaufunarmenningu og pólitískum rétttrúnaði. Gyða segir það ekki beint koma á óvart að boðskapur sem þessi fái meðbyr eftir framgang réttindabaráttu undanfarinna ára.
„Ég held að þarna upplifi kannski ákveðinn hópur sem nýtur enn ákveðinna forréttinda í samfélaginu, finnst að sér vegið og upplifir óöryggi varðandi eigin stöðu. Að í þessum hugmyndum fáirðu ákveðna fróun og samsvörun við ákveðna óánægju og frústrasjón þegar þú upplifir að vegið sé að stöðu þinni í samfélaginu. Það er kannski hægt að segja að þarna færðu auðveldu svörin við flóknum tilfinningum sem þú ert að upplifa. Þannig að þess vegna held ég að þetta eigi sér svona mikla skírskotun og samsvörun í samfélaginu,“ segir Gyða. Hún segir rannsóknir hafa sýnt að fólk fer ungt að bera kennsl á stöðu sína í samfélaginu og þá stöðu sem það telur sig eiga að hafa í samfélaginu.
Þurfum að vera á tánum
Gyða segir að samfélagið þurfi stöðugt að vera á tánum til að viðhalda þeim sigrum sem hafa unnist í réttindabaráttu hingað til.
„Það er alltaf hætta á bakslagi. Það er það sem að saga kvennabaráttu og barátta hinsegin fólks hefur kennt okkur,“ segir Gyða. Hún segir að bætt staða minnihlutahópa og aukinn sýnileiki þeirra eigi það til að framkalla þessi undirliggjandi sjónarmið.
En getur verið að við séum að gefa þessu of mikið vægi? Er þetta ekki bara einhver trúður með ósmekklegt grín?
„Ég held það sé allt í lagi að taka þetta alvarlega. Og eins og Eyrún Eyþórsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri hefur bent á varðandi hatursræðu þá er mjög mikilvægt að taka hana föstum tökum því hún getur leitt til einhvers annars og meira.“ Gyða segir að margir hugsi á þennan veg. Að það sé ekki hægt að taka svona málflutning alvarlega. Það megi þó varast.
„Hatursræðu er oft komið á framfæri í gegnum það sem á að vera húmor og í húmornum er þá verið að koma á framfæri öðrum og alvarlegri skilaboðum. Þannig að það er full ástæða til að taka þetta alvarlega,“ segir hún.
Rætt var við Gyðu Margréti Pétursdóttur í Speglinum. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana í spilaranum hér fyrir ofan.