Ágangur máva reynir víða á þolmörk fólks. Arnór Þórir Sigfússon fuglafræðingur segir vænlegast til árangurs að leyfa mávum að eiga heimili sín í friði fjarri mannabyggð til að forðast átök.

Mikið hefur verið rætt um mávagarg í borginni og víðar. Umræðan er sérstaklega hávær í Garðabæ þar sem íbúum finnst nóg um. Bæjarstjórinn hefur gefið það út að líklega sé best að stinga á egg mávanna til að sporna við útbreiðslu þeirra. Arnór Þórir ræddi við Síðdegisútvarpið um sambúðina með sílamávum.  

Mávurinn var á undan 

Umræðan um máva dúkkar upp öðru hverju. Þeir eru ekki vinsælir í sambýli við mannfólk og þykja bæði háværir og ágengir. Arnór Þórir segir Gálgahraun í Garðabæ hafa verið varpsvæði lengi. „Þetta er dæmi um svæði þar sem mávurinn var áður og mennirnir fluttu að þeirra svæði.“ Byggð manna hefur smám saman þokast nær híbýlum mávanna. „Þetta gerist stundum og þá kemur til árekstra.“ 

Alætur sem eru duglegar að bjarga sér 

Sílamávar eru rándýr og kjörfæða þeirra eru síli eins og nafnið gefur til kynna. Arnór segir hér vera skort á sílum og því hafi mávurinn þurft að breyta mataræði sínu. „Þeir eru duglegir að bjarga sér.“ Mávar eru alætur og borða því býsna margt. Margir fara út á sjó og finna sér fisk, sumir sækja í borgina, fara niður á Tjörn þar sem oft er brauð í boði. Lítill hluti sækir í að veiða unga annarra fugla og taka egg. Úrræðagóðir mávar hafa svo tekið upp á því að hirða matarafganga eða hreinlega næla sér í grillkjöt beint af grillinu. Fólki þykir mörgu hverju nóg um áganginn og spyr sig hvað sé til ráða.  

Kemur til árekstra 

Bæjarstjórinn í Garðabæ hefur kastað fram þeirri hugmynd að stinga á eggin þeirra og eiga við varpið því þolinmæði fólks sé á þrotum.  

Arnór Þórir segir að mávarnir séu að verja unga sína. „Þegar að fólk kemur nálægt hreiðrunum eða ungunum, sérstaklega ungunum, þá steypa þeir sér niður að fólki.“ Hann skilji vel að fólki standi stuggur af dýfingum fuglanna. Þeir komi aftan að fólki, eru stórir og háværir, svo fólki bregður við. Þeir séu þó ekki beint að ráðast á fólk. „Þeir kannski senda slummu í hnakkann,“ bætir hann þó við.  

Lausagangur hunda lausnin 

Arnór Þórir gefur ekki mikið fyrir hugmyndir bæjarstjórans um að stinga á egginn og segir það ekki vænlegt til árangurs. Það sé mikilvægt að leyfa mávinum að eiga sitt varplendi. „Einhvers staðar verða vondir að vera.“ Þoka má mávinum í burtu með umgangi í Gálgahrauni, til dæmis með lausagangi hunda. Best er að leyfa mávinum að eiga sitt svæði í friði fjarri mannabyggðum, þá kemur síður til árekstra við mannfólk.

Allt tekur enda 

Sambúðin með mávunum er tímabundin því þeir eru farfuglar og fara fljótlega að hugsa sig til hreyfings. Þegar ungar þeirra eru orðnir fleygir styttist í ferðalagið yfir hafið og þeir eru með öllu flognir á brott í lok september. Gangur lífsins er sá að fuglarnir koma og fara. „Þetta er jú náttúran,“ segir hann. Arnór Þórir mælir með því að fólk gangi vel um og skilji ekkert ætilegt eftir utandyra næstu vikurnar. Senn fer sambúðinni að ljúka og friður kemst á í Gálgahrauni á ný.  

Rætt var við Arnór Þóri Sigfússon í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.