Helga Rakel Rafnsdóttir flytur pistil um listakonuna Fridu Kahlo. Helga man ekki hvenær hún kynntist Fridu Kahlo fyrst en hún endurnýjaði kynnin fyrir skömmu.


Helga Rakel Rafnsdóttir skrifar: 

Fyrir tveimur árum fylgdist ég með vinkonu minni, skáldkonunni Elísabetu Jökulsdóttur, flytja úr húsinu sínu í Vesturbænum. Hún hafði búið lengi í húsinu og við ákváðum að ég skyldi taka upp ferlið, festa umskiptin á filmu, flutninginn úr húsinu þar sem hún hafði skrifað öll sín verk, alið upp börnin sín og farið í gegnum ótal og alls konar tímabil í lífsins ólgusjó. Húsið hennar Elísabetar á Framnesvegi var sannarlega höll minninganna, málað í alls konar fallegum litum og fullt af fallegum húsgögnum og hlutum sem skiptu hana máli. 

Í eitt skiptið þegar ég var að taka Elísabetu upp var hún að fara í gegnum kassa af gömlum plakötum og pappírum. Sonardóttir hennar, sem þá var í heimsókn, tekur upp plakat og segir: Vá, en flott mynd! 

Elísabet svarar: Já, veistu ekki hver þetta er?

Nei, en þetta er geggjað flott mynd, segir sonardóttirin.

Já, segir Elísabet þá, þetta er Frida Kahlo, hún var soldið eins og ég, alltaf að fjalla um sjálfa sig, alltaf að fjalla um sömu þjáninguna, aftur og aftur og aftur. 

Ekki aðeins þótti mér ýmislegt til í þessari samlíkingu Elísabetar, heldur fannst mér gaman að verða vitni að því þegar ung manneskja uppgötvar Fridu Kahlo í fyrsta sinn. Að verða vitni að furðu, undrun, lotningu og aðdáun. Hvað fer í gegnum huga manneskju sem skoðar verk Fridu í fyrsta sinn? Hvaða tilfinningar og minningar er hún að spegla? Hvaða lærdóm er hún að draga af þessum fyrstu kynnum af veröld Fridu?

Ég man ekki hvenær ég sá fyrst mynd eftir Fridu Kahlo, kannski var það póstkort sem hékk á heimili okkar mömmu þegar ég var barn og hún í myndlistarnámi. Þetta var nokkuð dæmigerð mynd af Fridu, hún með uppsett hárið, skreytt blómum, og mig minnir að á öxl hennar hafi setið api. Ég er alveg ekki viss. En ég veit að veröld Fridu hefur lifað með mér frá barnæsku. Og ég veit að það sama gildir um margar konur og bara manneskjur. Frida Kahlo er í raun sameiginlegt minni ákveðins þroskaskeiðs kvenna: við hengjum upp myndir af henni í herberginu okkar, helst fyrir ofan rúmið, við mætum í búningapartí klæddar, greiddar og málaðar eins og Frida og við trúum Fridu fyrir okkar innstu hugrenningum því hún prýðir forsíðuna á dagbókunum sem við skrifum þær í. Við sofum í bolum með mynd af Fridu og við geymum sunddótið okkar í töskum sem skreyttar eru andliti hennar eða tilvitnun í einhverjar af hennar fleygu setningum. Frida er spegill, Frida er fyrirmynd, Frida veitir styrk. Og þannig hefur það alltaf verið, Frida Kahlo kemur og fer, en alltaf kemur hún aftur. 

Og þannig var það einmitt fyrir rúmu ári, í kjölfar veikinda, að Frida kom aftur. Ég var nýbúin að átta mig á því að líkami minn ber með sér ættgengan sjúkdóm sem nefnist MND eða ALS, erfðagalla sem veldur því að ég lamast. Fyrst fara fæturnir, svo hendurnar og að lokum restin af viljastýrðum vöðvum líkamans. Á meðan ég vona og bíð eftir því að vísindasamfélagið finni lækningu leita ég inn á við að styrk til þess að takast á við þá staðreynd að líf mitt er að umbreytast og ég mun líklega aldrei ná alveg utan um það hvert stefnir. Og ég leita líka út á við, fálma eftir hverju því sem getur hjálpað mér að komast upp brattann.

Og þannig er það, að eitt kvöldið þegar ég ligg uppi í sófa, lúin í fótunum að  skrolla á alnetinu,  að ég rekst á lítið altari með mynd af Fridu Kahlo, einhvers konar skríni með glerhurð til að hengja upp á vegg. Ég skrifa konunni sem er að selja skrínið og festi mér það, ek svo upp í Kópavog daginn eftir til að sækja það. Þegar heim er komið leita ég lengi að rétta staðnum fyrir altarið. Þetta er mikilvægt, Frida er komin aftur, og ég vil hafa hana hjá mér, ég vil að hún fylgist með mér og ég má ekki gleyma henni, ég má ekki villast af leið. 

Á þessu ári sem liðið er, hef ég kynnst Fridu Kahlo upp á nýtt, sjónarhornið er annað og ég leyfi mér að segja að tengingin sé á einhvern hátt dýpri. Áður fyrr var hún bæði yfirborðskenndari og óræðari auk þess sem mér þótti stundum óþægilegt hve mikilli þjáningu verk hennar miðla. Núna er allt annað uppi á teningnum, ég skoða þær myndir sem tjá hvað mesta þjáningu af mikilli áfergju því þær eru ekki aðeins spegill heldur staðfesting á sigri Fridu, á sigri listarinnar, á sigri mannsandans. Og mantran mín hefur verið: Ef Frida gat það, þá get ég það lika. 

Magdalena Carmen Frida Kahlo y Calderón fæddist í Mexíkó þann 6. júlí árið 1907 og lést þann 13. júlí árið 1954, þá 47 ára að aldri. Calderón er ættarnafn móður hennar og Kahlo er ættarnafn föður. Frida veiktist sex ára gömul af mænusótt og upp frá því haltraði hún því annar fóturinn var styttri en hinn.  Sagan segir að henni hafi verið strítt af skólafélögum sínum vegna þess að hún haltraði og það sé ástæða þess að strax á barnsaldri fór hún að skapa sér sinn eigin stíl og ganga í síðum pilsum. Þegar Frida er 18 ára gömul lendir hún í alvarlegu slysi þegar bifreið og sporvagn rekast saman. Hún slasast illa og er lengi rúmliggjandi á eftir og það sem eftir lifir ævinnar fer hún í 30 aðgerðir á líkama sem allar tengjast afleiðingum þessa eina slyss. Frida var byrjuð að teikna og mála áður en hún lenti í slysinu og var það fyrir hvatningu og hjálp fjölskyldunnar að Frida fór að mála af krafti á meðan hún var rúmliggjandi eftir slysið. Henni voru færðar trönur í rúmið og í loftinu fyrir ofan það var festur spegill þannig að Frida gæti málað sig sjálfa. Þannig varð hún sitt eigið mótíf, sín eigin músa. Faðir Fridu var ljósmyndari og því eru til ótal myndir af henni allt frá unga aldri. Og þær eru ansi magnaðar ljósmyndirnar af hinni 18 ára gömlu Fridu Kahlo, þar sem hún liggur í rúminu, með höfuðið reyrt við gaflinn til að vernda mænuna, en samt málar hún. Á einni myndinni er þjónustustúlka að mata hina rúmliggjandi Fridu um leið og hún málar, og meira að segja þá er yfir henni sama reisnin og á öllum öðrum myndum, hvort sem um ræðir málverk eða  ljósmyndir.

Hinar mörgu ljósmyndir sem til eru af Fridu frá unga aldri bera einnig vitni um tvíkynhneigð hennar en hún byrjaði sem unglingur að storka viðteknum hugmyndum um kynin þegar hún mætti til fjölskyldumyndatöku klædd í karlmannsföt, ólíkt móður sinni og systrum sem klæddust kjólum. Frida tjáði sig ekki aðeins með málverkum sínum, heldur einnig með því hvernig hún klæddist hverju sinni og er útlit Fridu og stíll órjúfanlegur hluti höfundarverks hennar.

Frida sagði sjálf að í lífi hennar hefðu átt sér stað tvö stórslys, annars vegar bílslysið - og hins vegar það að hún hefði kynnst lífsförunaut sínum, mexíkóska málaranum Diego Rivera. Samband þeirra var bæði gjöfult og stormasamt og eins og frægt er orðið áttu þau bæði marga elskendur utan hjónabandsins. Þau voru gift frá árinu 1929 til 1939 þegar þau skildu en skilnaðurinn stóð stutt yfir þar sem að þau giftu sig aftur ári síðar og voru þau gift þar til ársins 1954 þegar Frida féll frá. Það voru margir sem vildu eigna sér Fridu og þar með talið súrrealistinn André Breton, en Frida hafnaði því að málverk hennar væru súrrealísk og sagðist aðeins vera að mála raunveruleikann, eins og hann blasti við henni.

Ári áður en Frida Kahlo lést hafði mexíkóski ljósmyndarinn Lola Alvarez Bravo áttað sig á því að Frida ætti ekki langt eftir. Hún stóð fyrir því að fyrsta einkasýning Fridu í Mexíkó var haldin í Galería Arte Contemporaneo í apríl 1953. Frida var þá rúmföst vegna heilsu sinnar samkvæmt tilmælum lækna og enginn átti von á því að hún myndi mæta á opnunina. En Frida mætti. Hún sendi rúmið sitt á undan sér og var svo borin inn úr sjúkrabílnum á börum. Og þar lá hún og tók þátt í gleðinni, í stóra fallega rúminu sínu inni í miðju galleríi, á opnun sinnar fyrstu einkasýningar í heimalandinu Mexíkó, ári áður en hún lést. 

Gracias a la Frida, segi ég - og Gracias a la vida, syngur Violeta Parra!

Helga Rakel Rafnsdóttir flutti pistil um Fridu Kahlo í Tengivagninum á Rás 1. Þáttinn má heyra í heild sinni hér í spilara RÚV.