Þúsundir slökkviliðsmanna berjast nú við mikla skógarelda í Frakklandi. Hitinn í Evrópu í sumar hefur þurrkað upp gríðarstór landsvæði svo að lítið þarf til að miklir gróðureldar kvikni. Bæði í Frakklandi og á Bretlandseyjum er vatni skammtað á þeim svæðum þar sem ástandið er verst. 

Hervé Trentin hefur verið í slökkviliðinu í Gironde í Frakklandi í 34 ár. Hann stendur við brunarústir í skógi nærri heimili sínu og þurrkar tárin.

„Fyrirgefið,” segir hann við fréttamenn breska ríkisútvarpsins. „Þetta er skógurinn okkar. Það er svo yfirþyrmandi að horfa á hann brenna.”

Framtíðin veldur kvíða

Trentin og teymi hans eru á ferð um svæði sunnan við frönsku borgina Bordeaux og reyna að vera skrefi á undan skógareldunum. Þeim var gefið það verkefni að brenna skóginn af ásettu ráði og slökkva um leið, til þess að minnka eldsmatinn og hindra þannig för eldanna víðar um skóglendið sunnan við Bordeaux. Trentin ólst upp rétt hjá. 

„Það er erfitt fyrir mig að hugsa til þess að ég muni aldrei sjá skóginn aftur eins og hann var. Ég er orðinn 53 ára og þessi skógur mun þurfa um 30 ár til að ná sér.”

Trentin á þriggja ára dóttur sem hann hugsar til. „Ég velti fyrir mér hvað gerist,” segir hann.

„Ég vil ekki segja að framtíð okkar verði eins og það sem við erum að upplifa núna í sumar, en… þú veist.”

Aftur og aftur

Sótið úr síðustu gróðureldum í Gironde hafði varla sest áður en eldar geisuðu að nýju. Í júlí brann þar um 14 þúsund hektara svæði en það er tvöfalt stærra en allt Stór-Reykjavíkursvæðið. Slökkviliðsmenn virtust hafa náð að ráða niðurlögum þeirra elda en steikjandi hitinn sem þá var í Evrópu hélst í jarðveginum og kveikti nýja elda upp úr engu að því er virðist. Upp á ensku heitir slíkt fyrirbæri zombie-fire eða uppvakningseldur. 

Trentin vann myrkranna á milli í júlí þegar eldar loguðu sem mest, stundum í allt að 48 klukkustundir samfleytt. 

„Ég hafði aldrei séð slíka elda. Ég man eftir stóru eldunum árið ‘91 og ‘97 en þeir dreifðu ekki úr sér eins hratt,” segir hann. Einhvern veginn voru eldarnir í ár verri en þá, gróðurinn þurrari en nokkru sinni fyrr. 

„Meira að segja harðviðurinn brann eins og strá. Vanalega getur harðviðurinn hjálpað okkur við að berjast gegn gróðureldum.”

Lífsháski

Í gær voru Trentin og teymi hans á vakt. Þeir reyndu að brenna gróður kringum nærliggjandi hús og eyða þannig eldsmat. En þurrkurinn í Gironde er orðinn það mikill að eldarnir sem þeir kveikja sjálfir geta smitast í nærliggjandi gróður á aðeins nokkrum sekúndum. Og þá er voðinn vís.

Síðasta fimmtudag reyndu þeir að kveikja elda á fyrirfram ákveðnu svæði. Skyndilega fundu slökkviliðsmennirnir fyrir köldum gusti leika um fætur þeirra og svo virtist sem mikilli vindhviðu væri um að kenna. En í raun var þetta eldurinn að sjúga til sín súrefni í sömu svipan og hann steyptist fram á við og í átt að þeim. Teymi Trentins kraup á kné og reyndi að halda ró sinni. Þarna vissu þeir að eldunum yrði ekki stjórnað - jörðin væri alltof þurr. 

Ríflega þúsund slökkviliðsmenn eru að störfum í Gironde í Frakklandi. Slökkviliðsmenn frá nærliggjandi héröðum og jafnvel nágrannalöndum koma og hjálpa. Þeir hafa ekki allir sömu reynslu og Trentin. Sumir þeirra eru að berjast við stóra skógarelda í fyrsta sinn og vita ekki hvernig eigi að bregðast við þegar eldurinn nálgast á ógnarhraða. 

„Þegar vinnudagurinn hefst veit ég aldrei hvenær honum lýkur.”

Þegar nýju eldarnir loguðu hvað hæst um miðja síðustu viku voru Trentin og kollegi hans að störfum þegar stærðarinnar eldkúla þeyttist að þeim. 

„Þetta er eins og bylgja sem kemur í áttina að þér. Þú getur ekki flúið,” segir Trentin. „Þú verður að henda þér í jörðina og liggja þar kylliflatur.”

En sumir yngri slökkviliðsmenn kunna þetta ekki. Þeir frjósa jafnvel uppréttir. Tveir samstarfsmenn Trentin hlutu annars stigs bruna á fótum og andliti um daginn við slíkar aðstæður. 

„Ef þú hefur ekki ástríðu fyrir þessu starfi þá geturðu ekki sinnt því. Við kannski virðumst vera harðjaxlar, en í raun erum við viðkvæmir. Við höfum ástríðu fyrir skóginum, fyrir náttúrunni. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að brenna hana viljandi til þess að bjarga henni,” segir Trentin.