Hamra skal járnið meðan það er heitt, segir máltækið. Það átti svo sannarlega við á Akranesi um helgina, þar sem Norðurlandameistaramót í eldsmíði fór fram. Svíar voru sigursælir á mótinu en einn Íslendingur, Beate Stormo, komst á pall og lenti í þriðja sæti í flokki meistara.
Eldsmíði er fornt handverk þar sem unnið er með glóandi járn sem er hitað á eldi og það svo barið til og myndað í form. Verkefnið á mótinu var að smíða akkeri, og keppendur höfðu einungis fjóra tíma til að ljúka verkinu. Fimmtán keppendur tóku þátt, frá Íslandi, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku.
Mikill áhugi var á keppninni og komu á annað þúsund manns að fylgjast með smíðinni og þegar tímavörður taldi niður í lok keppni meistara, brutust út fagnaðarlæti með lófataki.
Keppnin var síðast haldin hér á landi árið 2013 að Görðum á Akranesi. Reynt er að hafa keppnina annað hvert ár og er næsta keppni áætluð í Danmörku eftir tvö ár.
Keppt var í þremur flokkum; Bjartasta vonin, flokki sveina og flokki meistara. Magnus Nilson frá Svíþjóð sigraði flokkinn Bjartasta vonin. Keppni sveina sigraði Sami Niinilampi frá Finnlandi en þar á eftir komu Kasper Reinholdt Frá Danmörku í öðru sæti og Emil Lindqvist frá Svíþjóð í því þriðja. Keppni meistara sigraði Mathias Wilson frá Svíþjóð, í öðru sæti varð Mikael Wunderlich frá Noregi og Beate Stormo frá Íslandi í þriðja.