Í dag eru 40 ár síðan reglubundin starfsemi Ríkisútvarpsins hófst á Akureyri. Það markar jafnframt upphafið að starfi RÚV á landsbyggðinni.

Fyrsta deild Ríkisútvarpsins utan Reykjavíkur

14. ágúst 1982 hóf Ríkisútvarpið á Akureyri starfsemi með formlegum hætti. Þetta var stór áfangi í sögu Ríkisútvarpsins enda í fyrsta sinn sem deild frá stofnuninni, með fastráðnum starfsmönnum, tók til starfa utan Reykjavíkur.

„Enn einn mikilvægur áfangi á starfsferli Ríkisútvarpsins“

Ingvar Gíslason, sem gegndi stöðu menntamálaráðherra á þessum tíma, sagði í ávarpi í við þetta tækifæri að náðst hefði enn einn mikilvægur áfangi á starfsferli Ríkisútvarpsins. „Sá áfangi felst í því að upp frá þessari stundu er hafin reglubundin útvarpsstarfsemi á Akureyri með föstu starfsliði sem ekki ber að sinna öðrum verkefnum en þeim sem snerta norðlenskt útvarpsefni.“

Fjölbreytt dagskrárgerð og fréttaþjónusta

Upptökur á ýmiss konar efni höfðu áður farið fram víða á Akureyri, en starfsemi Ríkisútvarpsins tengist alls níu húsum í bænum. Í fyrstu voru starfsmenn RÚVAK þrír og starfsemin að mestu bundin við þáttagerð fyrir Rás eitt. Það átti eftir að breytast og fjölbreytt dagskrárgerð og fréttaþjónusta hefur verið þar allar götur síðan. Þrettán starfsmenn voru hjá RÚVAK þegar flest var, í dag eru þeir tíu.