Leikskólakerfið hefur margfaldast umfram getu, segir formaður Félags leikskólastjórnenda, eftir covid komi aftur í ljós hversu erfitt sé að manna skólana. Loforð í sveitarstjórnarkosningum um leikskólapláss fyrir tólf mánaða hafi verið innantóm.

Margir foreldrar eru í þeim sporum að þurfa að minnka við sig eða jafnvel hætta í vinnunni vegna þess að þeir fá ekki leikskólapláss fyrir börnin sín. Af því tilefni var efnt til mótmæla í Ráðhúsi Reykjavíkur í vikunni. Tæplega 700 börn  bíða eftir dagvistun í borginni, en unnið er að því að úthluta plássum fyrir tvö hundruð þeirra. Eftir það þurfa foreldrar um 470 barna, sem ekki komast að, að finna aðrar lausnir.

Laust pláss hjá einu dagforeldri

Það er ekki hlaupið að því heldur að fá dagforeldra. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar eru um það bil 65 dagforeldrar á skrá og eru laus pláss hjá einu þeirra.  

Aftur erfitt að manna skólana eftir covid.

Þá á enn eftir að manna fjölmargar stöður á leikskólunum sjálfum. „Ég geri fastlega ráð fyrir því að það vanti töluvert af fólki,“ segir Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla.

Stærstu sveitarfélögin hafa ekki gefið út hvað vantar marga. Ekki fengust upplýsingar um það hjá Reykjavíkurborg þegar fréttastofa leitaði eftir því. En ljóst er að það er nóg í boði fyrir þau sem vilja starfa á leikskóla. Á ráðningavefnum Alfreð koma yfir áttatíu niðurstöður þar sem óskað er eftir leikskólakennurum eða leiðbeinendum, víða um land.

„Covid-árin, þessi tvö síðustu ár, þá hefur gengið betur að manna heldur en núna. Því að ferðaþjónustan var ekki að taka eins mikið [fólk] til sín þá og núna. Þannig að ástandið er kannski svolítið að koma upp aftur,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að leikskólakerfið hafi stækkað of hratt síðustu tuttugu árin eða svo. „Við erum búin að margfalda þetta kerfi okkar, umfram getu. Við erum að taka inn yngri og yngri börn og börnin eru farin að vera lengur yfir daginn, sem kallar bara á meiri mannskap og við ráðum bara ekki við þetta.“

Innantóm loforð

En hvernig er hægt að fá fleiri til starfa á leikskólum? „Gera þetta að valkosti fyrir fólk að vinna í leikskóla. Það er ekki í dag, starfsaðstæðurnar eru ekki nógu góðar og launin mættu hækka.“

Í kosningunum í vor töluðu nokkrir flokkar fyrir því að 12 mánaða og eldri fengju leikskólapláss í Reykjavík í haust.

„Það var engin innistæða fyrir þeim loforðum. Við vissum það allan tíman að þessi börn sem eru kominn inn undir 12 mánaða aldri kæmust aldrei inn í leikskólann á þessu tímabili.“