Félags- og vinnumarkaðsráðherra segist harma átök innan verkalýðshreyfingarinnar. Kröftug barátta sé af hinu góða svo lengi sem niðurstaða náist að lokum. Hann segir stöðuna í kjaraviðræðunum vera þrengri en oft áður.

Mat Þjóðhagsráðs mikilvægt

Hagfræðingar Þjóðhagsráðs telja lítið svigrúm til launahækkana í vetur. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og ræddi stöðuna sem upp er komin í kjarabáráttunni eftir afsögn forseta ASÍ í vikunni. Hann segir mat Þjóðhagsráðs á stöðunni mikilvægt.

„Ég held að við getum öll verið sammála um að staðan er þrengri en hún hefur verið oft áður. Það er eitthvað sem þarf að taka inn í myndina.“

Eftirsjá að Drífu Snædal

Guðmundur Ingi sagði eftirsjá að Drífu Snædal, fráfarandi forseta ASÍ. 

„Manni finnst þetta fyrst og fremst bara leiðinlegt. Leiðinlegt að sjá hversu hart þetta hefur verið. Drífa er kröftugur verkalýðsleiðtogi. En svona er þetta.“ 

Hann segir að hörð verkalýðsbarátta sé þó af hinu góða. Íslendingar megi þakka kröftugri baráttu verkalýðshreyfingarinnar mörg réttindi sem þeir njóti í dag.

„Það sem er hins vegar mikilvægt er að við náum að lokum að semja, náum niðurstöðu. Þannig að við sem flest getum sæmilega vel við unað. Það er náttúrulega alltaf þannig að báðir aðilar verða að gefa eitthvað eftir.“

Hlusta má á viðtalið við Guðmund Inga í heild sinni í spilaranum hér að ofan.