Tugir foreldra mótmæltu því í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun að hafa ekki fengið leikskólapláss fyrir börn sín í haust. „Við erum gamlir foreldrar, við eigum 12 ára dreng sem var í nákvæmlega sömu stöðu þegar hann var á þessum aldri. Nú erum við á fimmtugsaldri og erum með 10 mánaða gamalt barn og það er aftur nákvæmlega sama staða. Við fáum engin skýr svör um það hvenær hann kemst á leikskóla,“ segir Haukur Ingvarsson.
Boðað var til mótmæla við fund borgarrárðs. Foreldrar barna sem ekki hafa fengið dagvistun fyrir börn sín í haust komu saman og létu í ljós óánægju sína með úrræðaleysi borgarinnar. Urður Örlygsdóttir, fréttamaður sem var á mótmælunum, segir að tugir foreldra hafi mætt, jafnvel upp í 100.
Haukur segir að plönin sem fjölskyldan var búin að gera fyrir næstu mánuði og ár séu í algjörri upplausn. Konan hans er ljósmóðir og hefur ákveðið að vera heima fram að áramótum og Haukur hefur frestað sínu orlofi fram á næsta ár. „Við verðum launalaus á meðan. Þetta er vandamál sem snertir foreldra og vinnuveitendur og alla. Mér finnst svo sérstakt að þetta sé staðan ár eftir ár. En maður fer sjálfur út á vinnumarkaðinn og kannski gleymir þessu um skeið þegar maður er að vinna. En þetta er algjörlega óviðunandi,“ segir Haukur.
Dagur B. Eggerson borgarstjóri var á leið á fundinn í morgun. Hann segist vongóður um að yngri börn komist inn í haust en hefur verið síðustu ár.
Þorsteinn Gauti Gunnarsson og Gunnhildur Ólafsdóttir mættu á mótmælin ásamt Unnsteini syni sínum sem er að verða eins árs. Þau hafa ekki fengið nein svör um leikskólapláss í borginni. Gunnhildur segist hringja í einkarekna leikskóla og dagforeldra nánast daglega.