Ágúst ætlar að vera gjöfull í útgáfu á nýrri tónlist eins og heyrist í Undiröldu kvöldsins þar sem er boðið upp á spriklandi ferska tónlist frá Unnsteini, Aroni Can, GKR, Benna Hemm Hemm ásamt Urði og Kött Grá Pjé, Sváfni, Friðriki Ómari ásamt Jógvan, Má Gunnarssyni og Geir Ólafs.
Unnsteinn - Eitur
Það er farið að styttast í Tónaflóð Rásar 2 á Arnarhóli á Mennigarnótt og einn af þeim tónlistarmönnum sem kemur þar fram er Unnsteinn Manuel Stefánsson. Hann hefur í tilefni af því gefið út lag sem hann semur með Sveinbirni Hermigervli Thorarensen sem heitir Eitur en þeir unnu síðast saman ábreiðu af Páls Óskars-slagaranum Er þetta ást með góðum árangri.
Aron Can - Morgunsólin
Stolt Grafarvogs fyrir utan glæsilega sundlaug og Spöngina er án nokkurs vafa tónlistarmaðurinn Aron Can sem hefur sent frá sér lagið Morgunsólin. Lagið er það fyrsta frá kappanum frá því hann sendi frá sér breiðskífuna Andi, Líf, Hjarta, Sál í fyrra en hún innihélt slagarana Flýg upp og Blindar götur.
GKR - Elskan
Rapparinn Gaukur Grétuson eða GKR hefur sent frá sér lagið Elskan en hann hefur átt nokkra smelli frá því hann skaust inn á tónsviðið fyrir nokkrum árum með laginu Morgunmat þar sem hann rappaði um morgunrútínuna sína.
Benni Hemm Hemm, Urður og Kött Grá Pjé - Á óvart
Benni Hemm Hemm, Urður og Kött Grá Pje gefa út lagið Á óvart á morgun föstudag. Lagið segja þau um margt merkilegt, þar sem langt er síðan heyrst hefur í bæði KGP og Urði en hún hefur ekki áður sungið á íslensku auk þess sem Á óvart er líka fyrsta rapplag Benna Hemm Hemm.
Sváfnir - Gítarinn
Gítarinn er annað lagið sem Sváfnir Sigurðarson markaðs- og kynningafulltrúi sendir frá sér af væntanlegri sólóplötu sem er sú þriðja í röðinni frá kappanum. Lagið er hljóðritað og masterað af Ásmundi Jóhannssyni og Jóhanni Ásmundsson og kemur út eftir viku.
Már Gunnarsson - Þú ert yndið mitt yngsta og besta
Tónlistarmaðurinn og ólympíufarinn Már Gunnarsson hefur sent frá sér útgáfu sína af dægurlaginu Þú ert yndið mitt yngsta og besta. Í laginu fær hann aðstoð frá Þóri Úlfarssyni, Einari Val Scheving, Birgi Stein Theódórssyni, Pétri Valgarði Péturssyni, Phillip Jospeh Doyle og Elvari Braga Kristjónssyni við flutninginn.
Friðrik Ómar og Jógvan - Kannski finn ég ástina
Áfram með krúnerana því Fiskidagaprinsarnir Friðrik Ómar og Jógvan hafa sent frá sér lagið Kannski finn ég ástina, sem fjallar um að finna ástina í höfuðstað mygluostanna - Búðardal í Dölum en þar er auk þess að finna ýmsa aðra þjónustu.
Geir Ólafsson - She's My Whole World
Það er alltaf stutt í ástina þegar Miðflokksmaðurinn, söngvarinn og skemmtikrafturinn Geir Ólafsson myndar míkrafóninn. Nýjasta lag hans og hljómsveitastjórans Don Randi - She's My Whole World er engin undantekning.