Ellefu formenn stéttarfélaga harma þær aðstæður í verkalýðshreyfingunni sem urðu til þess að forseti ASÍ hafi þurft að segja af sér. Formaður Bandalags háskólamanna segir að ef átök haldi áfram innan ASÍ tefji það kjarasamningaviðræður á opinbera markaðnum. 

Viðbúið er að áframhaldandi óvissa verði innan Alþýðusambandsins að minnsta kosti þar til ljóst verður hver verður kjörinn forseti á þingi þess 10. október.

Formenn þriggja félaga hafa langmest gagnrýnt forsetann fyrrverandi, Drífu Snædal. Það er formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, fyrrverandi formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, og formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir. 

Bæði Verkalýðsfélag Akraness og Efling eru aðildarfélög í Starfsgreinasambandinu. Vilhjálmur er nú formaður þess. En ekki er eining meðal þeirra nítján félaga sem aðild eiga að Starfsgreinasambandinu. 

Meirihluta formanna SGS harmar brottför Drífu

Formenn ellefu félaga innan sambandsins segja í yfirlýsingu í dag að þeir harmi þær aðstæður sem orðið hafi til þess að Drífa hafi séð sig knúa til afsagnar og að verkalýðshreyfingin verði að koma í veg fyrir að starfsfólk hennar upplifi sig eins og Drífa gerði. 

Nítján stéttarfélög eiga aðild að starfsgreinasambandinu. Félögin ellefu eru: Drífandi, Eining-Iðja, Hlíf, Verk Vest, Samstaða, Verkalýðsfélag Suðurlands, Báran, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfelllinga og Aldan. 

Formenn átta stéttarfélaga skrifuðu ekki undir

Formaður Starfsgreinasambandsins skrifar ekki undir yfirlýsinguna og hann skrifaði ekki heldur undir sem formaður Verkalýðsfélag Akraness Og þá kemur heldur ekki á óvart að Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar skrifar ekki undir. Það gerðu heldur ekki formenn Afls, Framsýnar, Stéttarfélags Vesturlands, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélags Þórshafnar. 

Takturinn virðist vera sá að tala upp væntanleg átök

Bandalag háskólamanna og BSRB eru stærstu sambönd stéttarfélaga á opinberum markaði og eru í samvinnu við ASÍ í ýmsu sem snýr að stjórnvöldum. 

„Saga verkalýðshreyfingarinnar er nú svolítið mikið saga væringa og því miður hefur verið svolítil tilhneiging til þess að þær verði bæði persónulega og rætnar. Mér finnst svolítil synd að maður sjái það svolítið í þessu,“ segir Friðrik Jónsson formaður BHM.

Félögin á opinbera markaðnum bíða með að gera kjarasamninga við ríkið þangað til búið er að semja á almenna markaðnum. 

„Ef að hér er allt að fara í átök í haust á almenna markaðnum þá mun það augljóslega tefja fyrir samningum og tafir á samningum á almenna markaðnum mun svona sögulega að sjálfsögðu hafa áhrif á opinbera markaðinn.“

Verðbólgan er komin í tveggja stafa tölu, segir Friðrik. Samningar á opinbera markaðnum renna út í mars á næsta ári og vanalega dregst jafnvel um sex til tólf mánuði að semja. 

„Öll töf í þessu ástandi er afleit. Ef að við erum að fá viðbótar töf vegna átaka þá er það bara ennþá verra. Og við viljum ekki að það endi þannig. Við viljum að fólk reyni að vinna sig að skynsamri og góðri niðurstöðu í kjarasamningum en takturinn virðist svolítið vera að tala upp væntanleg átök.“

Myndin með fréttinni er tekin á formannafundi ASÍ 16. okt. 2019