Prófessor í barnalækningum segir að Ísland sé eftirbátur annarra Norðurlanda í rannsóknum og nýsköpun í heilbrigðiskerfinu. Vandinn sé uppsafnaður eftir langvarandi fjársvelti og bitni verulega á heilsu og lífsgæðum landsmanna. Það sé áratugaverkefni að snúa þróuninni við.

Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, sem var á Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem fjármögnun heilbrigðiskerfisins var til umfjöllunar.

Hann segir að þrátt fyrir langvarandi fjársvelti sé ljóst að umtalsverðir fjármunir séu til hérlendis. Það sem svíði einna helst við stöðu heilbrigðiskerfisins í samtímanum, sé að sú kynslóð sem byggt hafi Ísland nútímans, í orðsins fyllstu merkingu með blóði, svita og tárum, séu aldraðir Íslendingar sem þurfi einna mest á kerfinu og þjónustu að halda. 

„Við leyfum okkur að tala þá sem vandamál. Það sé vandamál að koma þeim ekki burt af sjúkrahúsinu. Fráflæðisvandi, það er eins og högg í magann að heyra þetta orð.“

Spítalinn rísi tæpast undir nafni sem háskólasjúkrahús

Ásgeir segir að eins og staðan sé rísi Landspítalinn tæpast undir nafni sem háskólasjúkrahús, sem fyrr eða síðar komi niður á árangri spítalans. Hann hafi áhyggjur af vísinda- og rannsóknarhlutverki spítalans, því það komi niður á heilbrigði landsmanna, lífskjörum og líðan til lengri tíma.

Fjármagn hérlendis sé af skornum skammti, sérstaklega ef borið er saman við nágrannalönd og sambærileg háskólasjúkrahús í Evrópu. Ekki sé óalgengt að um 5 til 10% fjárframlaga fari til rannsókna, vísina og nýsköpunar. Á Landspítalanum sé þessi fjárhæð nærri einu prósenti og því gríðarmikill munur á framlögum sem sjúkrahúsið hafi til starfseminnar.

„Það er beint samasemmerki á milli rannsókna og árangurs starfsins. Árangur starfsins á Landspítala og í heilbrigðiskerfinu, þýðir bætt heilsa og betra líf. Auknar rannsóknir þýða betri aðgengi að nýjungum, meiri þekking, meiri framfarir og betri menntun. Og þar með auðvitað bættur árangur,“ segir Ásgeir.  

Ísland eftirbátur annarra Norðurlanda

Þá bendir Ásgeir á að umtalsverður munur sé einnig á þeim fjárframlögum sem varið er til heilbrigðiskerfisins í heild sinni, annars staðar á Norðurlöndum sé um 11 til 12% af vergri landsframleiðslu, en hérlendis sé um 8% varið til heilbrigðiskerfisins. Auka þurfi framlögin verulega, um allt að 30%, til þess að kerfið geti talist á pari við samanburðarlöndin. 

Hann segir að vandinn sé viðvarandi og erfitt verði að snúa þróuninni við. „Það er gríðarlega mikill uppsafnaður vandi. Við höfum dregist aftur úr í rannsóknum og vísindum, þar með talið í þekkingu og þekkingarsköpun. Við þurfum að gera mun betur til þess að vinna upp þennan slaka. Ef þetta heldur áfram á þessari braut, þá verður stöðugt erfiðara að ná aftur upp árangri í þessum greinum. Sem að þýðir, aftur, lakari árangur í heilbrigðiskerfinu.“

Verkefnið, að ná upp ásættanlegri árangri taki langan tíma, jafnvel áratugi. „Þessu verður ekki snúið við með skyndiátaki, eða einhvers konar átaki. Þetta er ára og áratugaverkefni að snúa við þessari þróun og setja okkur aftur á þann stað sem við viljum vera á. Það er stórt verkefni sem bíður, segir Ásgeir Haraldsson.

Í spilaranum hér að ofan er hægt að hlusta á viðtal við Ásgeir í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.