Á sjöunda hundrað börn, tólf mánaða og eldri eru á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Ekki liggur fyrir hve mörg eru í vistun hjá dagforeldri. Verið er að úthluta 200 leikskólaplássum þessa dagana, að því loknu verða líklega um 470 á biðlista.
Foreldrar sem bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín efndu til mótmæla í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag áður en fundur hófst í borgarráði. Hópurinn lýsti óánægju með stöðuna.
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru í dag 669 börn, tólf mánaða og eldri, á biðlista eftir leikskólaplássi. Ekki liggi fyrir hve mörg eru hjá dagforeldri en við þessa tölu bætast 60 börn sem eru á sjálfstætt starfandi leikskóla og bíða eftir plássi á borgarreknum.
Rúmlega 200 laus pláss eru í dag og er verið að úthluta þeim, en að því loknu verða væntanlega um 470 börn á biðlista. Samkvæmt borginni mun á næstu mánuðum verða hægt að taka við einhverjum þeirra og er unnið að enn frekari fjölgun plássa.