Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að afsögn Drífu Snædal sem forseti Alþýðusambandsins komi honum ekki verulega á óvart en að honum þyki leitt að þetta hafi verið niðurstaðan. Miklu máli skipti fyrir atvinnulífið og samfélagið að það sé gott talsamband á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins.
„Auðvitað er öllum brugðið við að heyra þessi tíðindi. Alþýðusambandið eru mjög mikilvæg samtök launafólks í íslensku samfélagi og Samtök atvinnulífsins eiga mikið samstarf við ASÍ. Ekki bara á þeim vettvangi sem er augljósastur í gegnum kjaraviðræður heldur í gengum allskonar góð mál til að þróa vinnumarkaðinn áfram. Auðvitað er maður hugsi yfir þessum vendingum sem eru að eiga sér stað.“
Hann segir of snemmt að segja til um hvaða áhrif uppsögn hennar hafi á kjaraviðræðurnar en að þetta muni hafa einhver áhrif.
„Það er engum í hag að það sé hver höndin uppi á móti annarri innan verkalýðshreyfingarinnar. Við hljótum auðvitað að vona að þau nái að leiða þessar deilur í jörð og við náum að þróa samtal við þau á næstu vikum og mánuðum.“