Formaður Eflingar hafnar niðurstöðu hagfræðinga Þjóðhagsráðs sem telja lítið svigrúm til launahækkana í vetur. Eflingarfólk sætti sig ekki við fyrir fram ákveðna niðurstöðu Þjóðhagsráðs heldur ráðist niðurstöður kjarasamninga við kjarasamningsborðið.
Engir fulltrúar verka- og láglaunafólks hafi komið að fundum stjórnvalda fyrir undirbúning kjaravetursins. „Þetta er auðvitað til háborinnar skammar. Okkur er ekki einu sinni hleypt að þessu borði og jafnvel þó okkur væri það þá eru þessi vinnubrögð í hæsta falli ólýðræðisleg. Það er einfaldlega lagalegur réttur vinnuaflsins að setjast að samningum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Útilokar ekki verkföll
Sólveig Anna segist ekki útiloka að gripið verði til verkfalla gangi kjarasamningsviðræður ekki upp. Verka- og láglaunafólk eigi það vopn sem bíti harðast, verkföllin, og til greina komi að grípa til þeirra í komandi kjaraviðræðum.
„Það er alveg augljóst að verka- og láglaunafólk á á endanum það vopn sem bítur hart. Við beittum því vopni bæði í lífskjarasamningsviðræðunum og svo beittum við því með miklum árangri við borgina.“
Hún gefur lítið fyrir ummæli um svokallað höfrungahlaup þar sem launahækkanir gangi upp stigann og segir krónutöluhækkun sporna við því að mestu. „Það er aðferð sem skilar mestu til þeirra sem minnst hafa það. Það er aðferð sem vinnur markvisst gegn misskiptingu og kemur í veg fyrir höfrungahlaupið.“
Krónutöluhækkun umreiknuð í prósentuhækkun í leyni
„Þau sem semja við sig sjálf, eins og til dæmis, Bandalag háskólamanna, BHM, þau einfaldlega útbúa samningana með þeim hætti að á vissum stað í launatöflunni þeirra umreikna þeir krónutöluhækkanir yfir í prósentuhækkanir.“
Sólveig Anna segir þetta hafa farið leynt í síðustu kjarasamningsviðræðum. „Þessu var haldið leyndu fyrir okkur. Þannig að auðvitað er hræsnin mjög mikil. Það er mikill vilji til þess að reyna að hafa hemil á verka- og láglaunafólki.“
Hægt er að hlusta á viðtalið við Sólveigu Önnu í heild sinni í spilaranum hér að ofan.