Úti í geimnum er aragrúi af rusli stóru sem smáu sem svífur þar um. Á hverjum degi fellur eitthvað af því til jarðar og eftir því sem gervihnöttum fjölgar bætist við brakið, stórt sem smátt.
Mick Miners, sauðfjárbónda í Nýja Suður-Wales í Ástralíu, rak í rogastans þegar hann hugðist í síðustu viku kanna nánar það sem hann taldi að væri dautt tré á víðáttumiklu beitarlandi hans. Tréð reyndist vera framandi hlutur, sem stóð upp úr túninu, hátt í þrír metrar á hæð. Við nánari rannsókn kom í ljós að þetta var dágott brot úr Crew-1 hylki SpaceX eldflaugar sem hafnaði að mestu leyti í Mexíkóflóa í maí í fyrra.
Brotið lenti að öllum líkindum á túninu hjá Mick Miners 9. júlí. Síðan það fannst hafa tveir framandi hlutir til viðbótar komið í ljós í grenndinni. Nokkrum vikum eftir þetta hrapaði 25 tonna kínversk eldflaug í Kyrrahaf, undan ströndum Malasíu. Ekkert tjón varð á fólki eða mannvirkjum en litlu mátti muna að illa færi þegar sú kínverska brotlenti.
Geimöld gengur í garð
Fyrsta gervihnettinum var skotið á loft fjórða október 1957. Nákvæmlega þremur mánuðum síðar var annar sendur út geim. Aðgerðin mistókst, en 84 kílóa hlunkurinn brann upp áður en hann náði til jarðar. Frá þessum tíma hefur gervihnöttunum fjölgað hratt sem sveima yfir höfðum okkar. Fyrir tíu mánuðum voru þeir hátt í fimm þúsund, þar af um tvö þúsund virkir. Hinir höfðu ýmist lokið hlutverki sínu eða aldrei komist í gang.
Fjöldi gervihnattanna hefur um það bil tvöfaldast síðastliðið eitt og hálft ár.
Með auknum fjölda þeirra og mannaðra og ómannaðra geimferða eykst geimruslið. Mestallt brak sem fellur til jarðar utan úr geimi hafnar í hafinu. Líkurnar á að það endi á landi aukast þó stöðugt, þar sem óæskilegum hlutum fjölgar með ógnarhraða þarna uppi.
Samkvæmt nýjustu tölum frá Geimvísindastofnun Evrópu, ESA, sveima þar að minnsta kosti 36.500 hlutir sem eru stærri en tíu sentimetrar í þvermál. Þar er um það bil ein milljón hluta sem eru einn til tíu sentimetrar og 130 milljónir sem eru einn millimetri til tíu sentimetrar í þvermál. Mest eru þetta gamlir, ónothæfir gervihnettir, hlutir sem hafa brotnað úr eldflaugum, boltar, málningarflísar og fleira.
Sáralítil hætta á ferðum
Don Pollacco, prófessor í stjarneðlisfræði við Warwick háskóla í Bretlandi, staðfestir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að afar sjaldgæft sé að geimrusl lendi á jörðu niðri. Hann segir að eitthvað falli utan úr geiminum á hverjum degi en nánast allt sem ekki brennur upp á leiðinni niður lendi í sjónum. Hann gerir lítið úr hættunni á að það lendi á fólki. Einungis er vitað um eitt tilvik. Lottie Williams varð fyrir því árið 1997 í Oklahoma í Bandaríkjunum að smábrak lenti á öxl hennar. Hún slapp ómeidd. Eitthvað er þó um að sjáist á húsum þegar þungt brak lendir á þeim. Það gerðist einmitt á Fílabeinsströndinni árið 2020 þegar leifar af kínverskri eldflaug höfnuðu þar.
En hættan sem stafar af geimrusli fer vaxandi eftir því sem það eykst. Samkvæmt rannsókn sem gerð var við háskólann í Bresku Kólumbíu í Kanada og birt var í síðasta mánuði, eru tíu prósenta líkur á því að einn jarðarbúi eða fleiri láti lífið af völdum geimrusls á næstu tíu árum. Don Pollacco prófessor gerir þó lítið úr hættunni. BBC hefur eftir honum að líkurnar á að verða fyrir braki utan úr geimnum séu nánast engar og því sé ekkert að óttast.
Rannsaka leiðir geimbraksins
En það fyrirfinnst fólk sem vill vita hvenær búast megi við að brak utan úr geimnum berist til jarðar og hvar það lendir. Þeirra á meðal er hópur vísindamanna við háskólann í Suður-Queensland í Ástralíu. Hann hóf fyrr á þessu ári að finna leiðir til að fylgjast betur með ruslinu. Vindgöng eru meðal annars notuð við rannsóknina. Fabian Zander fer fyrir hópnum. Hann segist í viðtali við ástralska sjónvarpið ABC vonast til að ekki falli jafn stór brot á jörðina og gerðist í Nýja Suður-Wales á dögunum, en ástæða sé til að glöggva sig betur á því hvernig ruslið dreifist þegar það kemur inn í andrúmsloftið. Jafnan segir Zanders að reynt sé að láta það falla í það sem hann kallar geimkirkjugarðinn á Suður-Kyrrahafi, en ýmislegt geti farið úrskeiðis þar sem lofthjúpur jarðar stækkar og dregst saman eftir veðri. Aðstæður í efri hluta hans séu mismunandi og því geti eitthvað fari úrskeiðis. En Fabian Zander minnir á að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verða fyrir öldruðum og úreltum gervihnetti þegar það fer út að viðra sig. Aðeins ein manneskja hafi fengið hlut utan úr geimnum í sig til þessa og hún hafi sloppið ómeidd.