Foreldrar óska eftir og auglýsa lyfseðilsskyld svefnlyf fyrir börn á samfélagsmiðlum. Forstjóri Lyfjastofnunar varar við allri slíkri dreifingu á lyfjum og segir jafnvel tilefni til sérstakrar skoðunar.

Svefnlyfjanotkun barna hefur aukist á undanförnum árum, og nokkur vandræði hafa verið með sölu á þeim á síðustu mánuðum. Svefnlyfið Vallergan hefur nú verið ófáanlegt á Íslandi í rúmt ár og að minnsta kosti tvisvar hafa börn verið lögð inn á spítala vegna ofskömmtunar lyfja sem áttu að koma í staðinn, nú síðast í júlí og í kjölfarið var annað lyfið innkallað og fólk beðið um að skila því.

En foreldrar hafa sumir gripið til sinna ráða og auglýst eftir lyfjum á samfélagsmiðlum, og auglýst skammta sem þeir eiga og þurfa ekki að nota. Fólk auglýsir á ýmsum hópum á Facebook, bæði almennum hópum fyrir foreldra, og sérstökum hópum fyrir foreldra svefnlausra barna.

„Fólk verður náttúrulega að gera sér grein fyrir því að lyfsala með lyfseðilsgild lyf á netinu er bönnuð. Það er einungis heimilt að afgreiða lyf úr apótekum eða frá lyfsölum. Og einungis læknar mega ávísa lyfseðilsskyldum lyfjum, svo þetta er bara mjög varasamt og við bara vörum við þessu. Og við þurfum hugsanlega bara eitthvað að skoða þetta ef mikið er um þetta, því þetta er bannað og maður á bara að hafa varann á, því fólk veit heldur kannski ekkert hvað það er að kaupa,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. 

Matvælastofnun tilkynnti í gær að melatónín í vægasta styrk yrði ekki lengur flokkað sem lyf og því mætti selja það sem fæðubótarefni. Melatónín er hormón sem kallar fram syfju og efni sem líkja eftir því eru notuð við svefnleysi. Matvælastofnun skoðar nú hvort efnið er öruggt fyrir börn, enda hafa rannsóknir bent til þess að það geti seinkað kynþroska. Samkvæmt tölum frá Landlækni jókst notkun barna á melatóníni fimmfalt milli áranna 2011 og 2020 og melatónín er eitt þeirra efna sem fólk auglýsir eftir fyrir börnin sín á Facebook.

„Fæðubótarefni er ekki lyf, það er matvæli. Það gildir líka löggjöf um matvæli, sem fæðubótarefnin falla undir. Og það er mikilvægt að ef fólk er að kaupa fæðubótarefni, að þau séu framleidd eftir þeim gæðastöðlum sem eiga að vera uppfyllt í matvælalöggjöfinni hér á Íslandi,“ segir Rúna.

Nánar var fjallað um svefnlyfjanotkun barna í Speglinum í dag.