Ísraelsmenn og leiðtogar íslömsku andspyrnuhreyfingarinnar PIJ hafa samþykkt tillögu Egypta um vopnahlé á Gaza, sem tekur gildi klukkan hálf níu í kvöld að íslenskum tíma, á miðnætti á Gaza-ströndinni.
Sendinefnd frá Egyptalandi fór til Gaza til að miðla málum, í kjölfar nánast stöðugra loftárása Ísraelsmanna í þrjá sólarhringa. Tveir leiðtoga íslömsku andspyrnuhreyfingarinnar PIJ voru drepnir í árásunum auk ríflega fjörutíu annarra borgara á Gaza. Fleiri en 300 eru særð.
Alls hafa 11 börn verið drepin í árásunum síðustu þrjá daga samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu í Gaza-borg.
Þá hefur eldflaugum verið skotið frá Gaza og hernumdu svæðunum á Vesturbakkanum á Tel Aviv, Jerúsalem og aðrar borgir nærri landamærunum. Þrettán Ísraelar særðust eftir að hafa orðið fyrir sprengjubrotum.
Samkomulag í sjónmáli frá því í morgun
Samkomulag um vopnahlé hefur verið í sjónmáli frá því í morgun, þegar sendinefnd Egypta greint var frá því að sendinefnd Egypta hefði náð árangri í viðræðum á milli deiluaðilanna. Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands sagði þá að viðræður stæðu yfir við báða aðila um að hætta árásunum og að vopnahlé væri í sjónmáli.
AFP-fréttastofan hafði eftir ónafngreinum embættismanni að Ísraelsmenn hefðu samþykkt vopnahlé og beðið var eftir viðbrögðum frá íslamistunum, sem samþykktu skilyrði vopnahlésins undir kvöld.
Segja má að það hafi verið óvænt að það tækist svo snemma að semja um vopnahlé, ekki síst vegna þeirra skilaboða sem Ísraelsmenn höfðu sent um að þeir myndu halda árásum áfram, teldu þeir nauðsyn á.
Í spilaranum hér að ofan má horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum.