Lögreglan á Suðurnesjum hefur tekið í notkun sérútbúinn torfærubíl, svokallaðan buggy-bíl, til að sinna eftirliti við gosstöðvarnar. Utanvegaakstur hefur reynst talsvert vandamál. 

„Það er öflug fjöðrun í honum, útbúinn sjúkrabúnaði, hjartaðstuðtæki og gasgrímum. Merktur og með blá ljós þannig að við komumst að svæðinu og auðveldar okkur eftirlit og útköll á gosstöðvunum,“ segir Atli Gunnarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Hann segir að utanvegaakstur sé töluvert vandamál við gosstöðvarnar og að þessi bíll muni vonandi koma í veg fyrir hann að miklu leyti. Þetta er fyrsti buggy-bíll lögreglunnar en annar alveg eins er væntanlegur til landsins. 

Hvernig finnst þér að keyra hann? 

„Þetta er mjög skemmtilegt, og auðveldar okkur lífið.“

Þannig að þetta er ekki það leiðinlegasta sem þú gerir í vinnunni? 
„Nei, við getum sagt að þetta sé eitt af skemmtilegri verkefnum, það er að vera hér við gosið,“ segir Atli

Bíllinn er í eigu ríkislögreglustjóra en löreglan á Suðurnesjum hefur afnot af honum til þess að komast til og frá gosstöðvunum.

Fréttastofa hitti Atla í dag og fékk að skoða tryllitækið, líkt og sjá má í myndskeiðinu efst í þessari frétt.