Tónlistarkonan Ragnhildur Gísladóttir hefur alltaf verið óhrædd við að fara eigin leiðir og telur að enginn þrífist á því að vera fastur í sömu skorðum. Hún hafði aldrei gaman að því að syngja ábreiður eins og hún gerði í byrjun ferilsins en fann sig með Þursaflokknum og Utangarðsmönnum.
Tónlistarkonan frækna Ragnhildur Gísladóttir heldur sína fyrstu stórtónleika í Eldborg 1. október þar sem hún flytur lög frá litríkum tónlistarferli sínum. Ragnhildur er brautryðjandi þegar kemur að konum í tónlist og ein virtasta tónlistarkona og -skáld landsins.
„Mér finnst það svolítið scary“
Ragnhildur hefur ekki áður stigið ein síns liðs á svo stórt svið og tónleikarnir því ný upplifun. „Ég bara fattaði það núna einhvern tímann í vetur,“ segir Ragnhildur í samtali við Huldu G. Geirsdóttur og Rúnar Róbertsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Hún segir að það hafi alltaf átt vel við hana að vera í litlum mengjum, alveg frá því hún var í Listaháskólanum en útilokar ekki að hún eigi ekki eftir að fíla að vera ein. „Ég veit það ekki, ég þekki það ekki. Mér finnst það svolítið scary,“ segir hún. Dagskráin verði fjölbreytt enda úr mörgu að velja eftir svo langan og tilraunarkenndan feril. „Þetta verður eitt og annað sem maður hefur verið að gera og er að pæla.“
Glímdi við tónsmíðar þegar foreldrarnir voru úti
Fyrsta lagið samdi Ragnhildur þegar hún var 11 ára og hún man vel eftir því. „Ég var svakalega feimin að spila, meira að segja þegar ég var að æfa mig á píanóið þegar ég var lítil. Ég lokaði alltaf vel að mér,“ segir hún. „Þegar foreldrarnir voru úti þá var maður kannski að glíma við einhverjar tónsmíðar, ef svo mætti kalla.“
Sá eini sem fékk að heyra afraksturinn var afi hennar sem hún spilaði lagið fyrir. „Ég man það mjög vel. Ég var að spila í garðinum hjá Stefi í hitt í fyrra, og þá tókum við þetta. Ég og Kjartan Vald. Það er enginn texti en ég bullaði bara,“ segir Ragnhildur og það er aldrei að vita nema tónleikagestir í Eldborg fái að heyra lagið.
„Ég held að maður myndi ekki þrífast þannig“
Ragnhildur hefur því verið að semja tónlist frá því að hún var barn enda lítur hún ekki á sig sem söngkonu heldur tónlistarkonu. Hún er óhrædd við að fara nýjar leiðir og vera tilraunarkennd í sinni tónlist. „Það er engu að tapa með það, ef maður hefur einhvern áhuga á að prófa sig áfram og láta einhverjar hugmyndir í framkvæmd.“
Hún hefur meðal annars verið með búkslátt og spilað á túnfífil. „Ég sé ekki að maður þurfi að vera í einu boxi, ég held að maður myndi ekki þrífast þannig,“ segir hún. „Það er kannski svolítið öðruvísi úti, þar sem eru milljónir manna og til að ná fram þá þarftu að vera bara með eitthvað eitt.“
„Hérna þarftu að vera dálítið kreatívur og koma alltaf með eitthvað nýtt og nýtt. Þó ég sé enn þá að syngja Sísí og Prinsessuna,“ bætir Ragnhildur við og hlær.
Auglýsti eftir tónlistarkonum í blöðunum
Ragnhildur hefur verið ein þeirra sem hefur skapað hvað mest pláss fyrir konur í tónlistarbransanum á Íslandi. „Maður fór eiginlega bara á rosalegri hörku inn í þetta,“ segir hún. „Mér fannst ég ekki vera að tapa neinu með því að henda mér í þetta. En aðalmálið var að finna þær.“
Þegar Ragnhildur setti saman hljómsveitina Grýlurnar setti hún auglýsingu á blöðin og hélt hljóðprufur. „Ég stillti því þannig upp, setti bara símanúmer í Moggann og þær mættu í bunum. Ég var svo ánægð með hvað þær voru margar.“
„Mig vantaði bara pening“
Stíll Ragnhildar hefur breyst mikið með árunum og segir hún það vera hluta af því að þroskast og finna sig. „Á svona löngum tíma gerist bara ýmislegt,“ segir hún. „Ég hafði gaman að, og það eina sem mér fannst vera eitthvað vit í var Þursaflokkurinn og Utangarðsmenn, þetta var eitthvað ferskt. Þá samræmist maður þeim fíling og vill vera þar og í þeim hópi.“ Hún segir að ef maður finni sig þá fari maður alla leið í þá átt.
Á byrjun ferilsins söng hún inn á vísnaplötur með Björgvini Halldórssyni og Gunnari Þórðarsyni en hún hafði ekki gaman af því að syngja ábreiður. „Mig vantaði bara pening,“ segir hún en er þakklát fyrir allan lærdóminn sem hún fékk í gegnum þá reynslu. „Auðvitað lærir maður þar. Út á hvað þetta gengur og hvað maður þarf að gera. Hvað er gott og hvað er leiðinlegt.“
Búkslátturinn fáránlegasta atriði aldarinnar
Árið 1991 kom Ragnhildur fram í fjölda útvarps- og sjónvarpsviðtala í Englandi með því að leika hljóð á líkamann. Þetta gerði hún með tríóinu The Human Body Percussion Ensamble sem var skipað þeim Sverri Guðjónssyni, Sigurði Rúnari Jónssyni og Ragnhildi. Þau notuðu eigin líkama í áslátt og börðu sér á brjóst, maga og haus.
„Það var gert til að vekja athygli á Íslandi, þannig komst Ísland á kortið í rauninni,“ segir Ragnhildur. „Jakob bara fann þessa leið, fékk einhverja hugljómun og lét þetta í gang,“ segir hún. Á þessum tíma var Jakob Frímann menningarfulltrúi Íslands í London og fékk tríóið með sér í þetta verkefni sem þau höfðu áður verið að leika sér að.
„Það var svo skrítið, við tókum íslensk þjóðlög og það gekk bara ágætlega, við vorum í fullt af útvarpsþáttum og sjónvarpsþáttum,“ segir Ragnhildur. Þau komu meðal annars fram í þætti Jonathan Ross sem síðar kaus atriðið eitt það fáránlegasta sjónvarpsatriði aldarinnar. „Sem ég skil,“ bætir Ragnhildur við og hlær.
„Bull er gull“
Af nægu er að taka fyrir efnisskrá tónleikanna í haust og er hún enn að melta hvað verði tekið fyrir. Þó vart sé hægt að ræða feril Ragnhildar án þess að nefna Stuðmenn þá efast hún um að lög eftir þá sveit verði í boði. „En ég veit það ekki, ég er alveg komin með langan lista,“ segir hún.
„Mér þykir rosalega vænt um plötur eins og Baby. En það sem er svolítið skrítið er að það eru plötur þarna sem eru bara bull, ekki textar,“ segir hún. „Það byrjar með Grýlunum, eins og Sísí, það er bara bull franska.“ Lagið hafi fengið hrikalega gagnrýni frá Frökkum vegna þess að franskan væri svo léleg að varla væri hægt að hlusta á lagið. „Human Body Orchestra er bara bull og Baby. Bull er gull.“
„Mann langar að vera með brot af einhverju svona, ég hefði gaman að því. En það kemur í ljós,“ segir hún.
Rætt var við Ragnhildi Gísladóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.