Gossvæðinu í Meradölum verður lokað í fyrramálið vegna slæmrar veðurspár og almannavarnir óska eftir því að fólk láti erlenda ferðamenn vita af lokuninni. Gríðarleg umferð var um svæðið í dag.
Það eru engar ýkjur að segja að bílaplönin við gosstöðvarnar hafi verið smekkfull þegar fréttastofa leit við á fjórða tímanum í dag, og varla lausan blett að finna. Björgunarsveitir telja að dagurinn í dag hafi verið sá fjölmennasti í vikunni, en daglega hafa í kringum fimm þúsund manns gengið að eldgosinu frá því á miðvikudag.
„Það er gríðarleg traffík hérna, endalaust af fólki að koma,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.
Er þetta strembið?
„Strembið og ekki strembið,“ segir Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri almannavarna hjá Þorbirni.
„Ekki þannig séð enn þá en nú er massinn kominn upp eftir og fer að koma aftur niður. Þá gæti farið að reyna meira á okkur, þegar fólk er orðið þreytt eftir gönguna og meiri líkur á að misstíga sig og svoleiðis,” segir hann.
Þeir segja að töluvert hafi verið um slys, langflest á ökkla, enda fjallið erfitt yfirferðar og stórgrýtt.
Þeir segjast ekki hafa séð annan eins fjölda við gosstöðvarnar síðan í fyrra, þegar gaus í Geldingadölum. „Nei, við sáum hinn helminginn af bílaflota Íslands í fyrra og ég held að þetta sé hinn helmingurinn hér núna,” segir Bogi.
Öngþveitið sem skapist í kringum bílaplönin sé ekki síður erfitt, eins og sást glögglega þegar Steinar stökk af stað eftir viðtalið vegna rútu sem stoppaði á miðjum veginum til þess að hleypa út farþegum. Þeir segja að það sé sannarlega ekki í boði, ekki frekar en að stöðva ökutæki á miðri Reykjanesbraut. Fólk fylgi þó almennt tilmælum, en þeir vilji sjá færri börn á fjallinu.
„Fólk er í góðum fíling en þegar maður er að benda fólki á að það sé ekki rétt búið, með ungbörn og svona, þá stundum fær maður svipinn. En almennt er fólk kurteist og tekur leiðbeiningum og hlustar,” segir Steinar.