Mikill fjöldi stuðningsfólks hinsegin samfélagsins á Íslandi fagnaði fjölbreytileikanum í miðborg Reykjavíkur, með þátttöku í Gleðigöngunni í blíðskaparveðri í dag. Gangan er hápunktur Hinsegin daga, eða Reykjavík Pride-hátíðarinnar, sem hófst í byrjun vikunnar.
Gleðigangan er farin til þess að minna á og undirstrika að mannréttinda- og réttlætisbaráttu hinsegin samfélagsins er ekki lokið, þótt sigrar hafi unnist hérlendis á undanförnum árum.
Þetta var í fyrsta skipti í þrjú ár sem gangan var haldin og ekki skorti stemningu, gleði og fjör, þótt undirtónn baráttunnar sé alvarlegur í ljósi bakslags sem orðið hefur í henni.
Gengið var frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og nýja Regnbogastrætið, Bankastræti og vestur Lækjargötu. Gangan endaði í Hljómskálagarði þar sem slegið var upp útihátíð og tónleikum.
Mikilvægur dagur fyrir hinsegin samfélagið
„Þetta er mjög mikilvægur dagur fyrir okkur öll,“ segir Helga Margrét Marzellíusdóttir sem tók þátt í hátíðinni í dag.
Helga segir að sem betur fer hafi svakalegur fjöldi fólks verið saman komin í miðbænum til þess að fagna regnboganum og sýna hinsegin samfélaginu stuðning í verki.
Hún segir að sýnileikinn skipti öllu máli. „Við höfum ekki getað gengið í nokkur ár og því er þetta mikill gleðidagur,“ segir Helga.
Tár, bros og hælaskór
Í nýjum skemmtiþætti á RÚV í kvöld verður fókusinn á gleðinni en einnig verður fjallað um sorgina sem hefur fylgt bakslagi í baráttunni síðustu misseri.
„Ég hlakka til að sýna þjóðinni. Þetta verður fjölbreyttur skemmtiþáttur með alvarlegum undirtóni líka. Við erum að sýna hinsegin tónlist, menningu og listafólk og ræða hinsegin málefni,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson, stjórnandi þáttarins.
Þátturinn er hluti af hátíðardagskrá Hinsegin daga og nefnist Fegurð í frelsi. Vegna samkomutakmarkana sem fylgdu heimsfaraldrinum færðist hátíðin heim í stofu síðustu tvö ár og verður sami háttur hafður á í kvöld.
Þá verður bæði sorg og gleði í brennidepli. „Þetta er ekki tár, bros og takkaskór heldur tár, bros og hælaskór,“ segir Sigurður.
Dagskrá Hinsegin daga 2022 má finna í heild sinni á vef Hinsegin daga.