Áhugi ferðamanna á Íslandi sem áfangastað hefur aukist eftir að eldgos hófst í Meradölum og meiri umferð er á vefsíðum flugfélaganna. Ritstjóri Túrista segir þó hættu á að ferðamenn eyði minna á öðrum stöðum á landinu vegna gossins.

„Það má alveg velta því fyrir sér hvort þetta hafi ekki jákvæð áhrif á ferðamannastrauminn, á meðan að gosið er af þessari stærð. Á meðan það verður ekki meira og hættulegra en nú er. Það er ekki annað að heyra, til dæmis af forstjórum flugfélaganna að þetta hafi haft jákvæð áhrif,“ sagði Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Hann segir ferðamenn einnig stoppa styttra hér á landi á haustin og veturna.  Þá taki tíma að gera gosinu skil, ferð upp að gosstöðvunum taki að minnsta kosti hálfan daginn. 

„Þá er spurning hvort að fólk fórni einhverju öðru í staðinn, sleppi Gullfossi og Geysi eða Bláa lóninu. Það kostar í sjálfu sér ekkert að fara að gosinu. Þá er spurning hvort við sjáum þetta í minni eyðslu ferðamanna á landinu.“

Aðgengismál við gosstöðvarnar skipti einnig máli. Koma þurfi fólki á gosstöðvarnar og til baka í heilu lagi, bæta þurfi bílastæðamál og merkja gönguleiðir almennilega að sögn Kristjáns. Hann segir gosið þó klárlega vekja athygli úti í heimi. 

„Íslensk ferðaþjónusta þarf svo sem á athygli að halda fyrir vetrarmánuðina.  Til að þetta sé heilsárs atvinnugrein þarf fólk að streyma til landsins yfir vetrarmánuðina,“ sagði Kristján.

Hlusta má á viðtalið við Kristján Sigurjónsson í heild sinni í spilaranum hér að ofan.