„Ég finn að ég er á réttri braut og það er ótrúlega frelsandi,“ segir Kristmundur Pétursson sem kom út sem trans maður árið 2021.
Kristmundur Pétursson kom út úr skápnum sem trans maður þegar hann var 24 ára. Hann segir alltaf betra að lifa sem maður sjálfur en að reyna að vera einhver annar. Hann segir frá því þegar hann kom út úr skápnum í Skápasögum sem eru á dagskrá í Sumarmálum á Rás 1 þessa vikuna.
Hefur alltaf vitað að hann væri strákur
Kristmundur segir að hann hafi alltaf vitað að ef hann hefði val væri hann strákur frekar en stelpa. „Ég hafði ekki orðin til að lýsa þessu fyrr en ég var svona 12 ára, þá fór ég fyrst að vita að ég gæti gert eitthvað í þessu,“ segir Kristmundur. Honum hafi ekki fundist hann nógu trans því honum liði ekki nógu illa: „Ég vissi ekki mikið um trans fólk nema að þegar að fólk talaði um þau var það á þeim nótum að þau væru skrítin og að fólk vorkenndi þeim.“ Hann hafi ekki viljað vera partur af þessum hópi og lengi búið yfir miklum fordómum.
Frestaði því í mörg ár að koma út
Kristmundur kom fyrst út sem lesbía í menntaskóla og lýsir létti sem var þó skammvinnur því hann fann fljótt að það var ekki allt. „ Ég hélt í alvöru að ég væri lesbía, það passaði allt. Mig langar í kærustu,“ segir Kristmundur. Hann áttaði sig smám saman á því að vinkonur hans sem voru lesbíur væru ekki að tengja við að langa í skegg eða þætti gaman þegar ókunnugir héldu að þær væru strákar. Hann áttaði sig á því að honum liði öðruvísi og að hann ætti enn eftir að stíga fleiri skref á leið sinni út úr skápnum.
Skipti um nafn á Facebook
Kristmundur planaði lengi hvernig best væri fyrir hann að koma út úr skápnum. „Ég vildi koma út þannig að þeir sem þekktu mig ekki myndu aldrei vita að ég hafi verið eitthvað annað en maður og að þeir sem þekktu mig áður myndu gleyma því sem fyrst.“ Hann komst þó að því að þessu væri ekki hægt að stýra og byrjaði á því að koma út fyrir sínu nánasta fólki en tilkynnti svo á Facebook fyrir breiðari hópi að hann væri að koma út: „ Ég sagði ekki neitt, breytti bara um nafn og mynd og leyfði fólki bara að fylla á milli línanna.“
Ferli þolinmæði og biðar
„Þetta er búið að taka langan tíma,“ segir Kristmundur. Hann beið í þrjá mánuði eftir því að komast að hjá trans teymi Landspítalans. Við tók hálft ár af reglubundnum fundum hjá sérfræðingum teymisins og því ferli lauk í mars. Síðan þá hefur hann beðið eftir því að komast að hjá innkirtlafræðingi. „Ég hélt að maður fengi þetta allt strax, að það þyrfti bara að biðja. En það tekur við ferli af þolinmæði og bið.“
Skipti um gír í lífinu
Samhliða því að hefja ferli hjá trans teymi Landspítalans hætti Kristmundur í vinnunni og byrjaði í háskólanámi. „Þetta gerðist allt mjög hratt síðasta haust,“ segir Kristmundur. Það átti enginn í skólanum að vita að hann væri trans. „Ég ætlaði að fljúga undir radar. Ég ætlaði ekki að tala við neinn eða kynnast neinum fyrr en ég væri orðinn, innan gæsalappa, nógu mikill maður.“ Þetta hafi þó ekki gengið því hann hafi kynnst fullt af góðu fólki í skólanum.
Enn þá sama manneskjan í kjarnanum
Þó að Kristmundur hafi breytt öllu sem hann gat í útliti sínu er hann enn þá sama manneskjan í kjarna sínum. „ Ég hugsa að ég sé hamingjusamari, sjálfsöruggari og rólegri. Núna er ég sáttur sem manneskjan sem ég er.“ Hann segist ekki lengur vera fastur í hlutverki: „Nú er ég ég sjálfur og það er ólýsanlegt.“ Kristmundur finnur fyrir mikilli hugarró að vita að hann sé á réttri braut í lífinu.
Kristmundur Pétursson sagði skápasögu sína í Sumarmálum á Rás 1. Hægt er að hlusta á allar skápasögurnar hér í spilara RÚV.