Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra segir hættu á að lífshættuleg slys geti orðið á gosstöðvunum.

„Við erum búin að sjá það tildæmis bara á vefmyndavélum RÚV að fólk er að labba yfir hraunið frá því í fyrra. Við flugum þarna yfir í fyrrinótt og þá sáum við það á nætursjónaukununm sem voru í þyrlunni að það er gló um allt þetta hraun sem rann í fyrra og það er stutt niður í þá þúsund gráðu heitt hraunið. Þannig að slys þarna geta orðið mjög alvarleg ef fólk er að fara inná hraunið,“ segir Víðir. 

Víðir segir almannavarnir telja sig geta komið upplýsingum ágætlega til skila á íslensku í gegnum fjölmiðla en erfiðara sé að ná til erlendra ferðamanna. „Þess vegna höfum við brugðið á það ráð vera með SMS skeytasendingar til þeirra sem koma inná svæðið á ensku með viðvörunnarorðum.“ Þá segir Víðir lögreglu og björgunarsveitir á staðnum gera allt sem þeir geta við að leiðbeina fólki. 

Víðir segir ekki til skoðunar að hefta aðgengi að svæðinu taki fólk leiðsögn illa. „Nei við ætlum nú að reyna að leyfa þeim skynsma meirihluta fólks að njóta þess að koma þarna en reyna að bæta frekar í upplýsingagjöfina,“ segir Víðir og bætir við að ekki meigi gleyma að mikill meirihluti geri þetta mjög skynsamlega.