Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, fréttamaður, og Guðmundur Bergkvist, myndatökumaður, eru á gosstöðvunum.
„Þetta er ekki mjög kröftugt gos eins og þið sjáið en spýjurnar ná nokkra metra upp í loftið úr sprungunni en þetta er auðvitað alltaf mjög tilkomumikið á að líta. Þetta er ekki langt frá gígnum sem gaus sem lengst þegar eldgosið var í Fagradalsfjalli. Hann er bara hérna uppi á hæðinni,“ segir Hólmfríður Dagný.
Gossprungan heldur lengri en í síðasta gosi
Eldgosið hófst um klukkan hálf tvö í dag í vestanverðum Meradölum um 1,5 kílómetra norður af Stóra-Hrúti. Gossprungan virðist vera um 300 metra löng. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðfræði, segir að sprungan líkist þeirri sem opnaðist á síðasta ári. Hún er heldur lengri en síðast og í henni eru lítil gosop. Magnús Tumi segir í samtali við fréttastofu að gosið fari rólega af stað, þetta sé flæðigos en ekki sprengigos.
Neyðarstig almannavarna og flugbann til 17:30
Neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir. Lögreglan hefur lokað fyrir akandi umferð á vegslóðum umhverfis gosstöðvarnar í Meradölum segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Almannavarnir hafa sett flugbann yfir gossvæðið til klukkan hálf sex í dag. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir að bannið verði aðeins í gildi á meðan viðbragðsaðilar meta stöðuna.
Upplýsingafundur almannavarna klukkan 17:30
Almannavarnir halda upplýsingafund í dag klukkan hálf sex. Á fundinum verða Magnús Tumi Guðmundsson, Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur, og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Fundurinn verður í beinni útsendingu á RÚV, Rás 2 og hér á rúv.is.
Fyrirsögnin og fréttin hefur verið uppfærð.