Ekki er vitað hvernig sinubruni, sem logaði við Fagradalsfjall í nótt, kviknaði. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands hélt að eldgos væri mögulega hafið.
Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, fylgdist með vefmyndavél Mbl.is ásamt kollegum sínum á vaktinni í nótt. Þau héldu að eldgos væri mögulega að hefjast. Enginn órói hafði þó mælst. Þyrlu Landhelgisgæslunnar var flogið yfir svæðið, meðal annars með fulltrúa Veðurstofunnar, en kom þá í ljós að þetta var sinubruni.
Eldurinn logaði rétt hjá einni af gömlu gönguleiðunum uppi á Fagradalsfjalli, að sögn Sigríðar. Engin skjálftavirkni hafði mælst á þeim slóðum. „Þetta hefði verið skrítið en náttúran er alltaf að koma okkur á óvart.“
Sigríður segir skjálftavirknina í nótt hafa verið tiltölulega litla. „Það tíndust inn litlir skjálftar af og til og svo kom einn hressilegur klukkan hálf sex.“ Sá skjálfti var 4,6 að stærð og átti upptök sín 3,4 kílómetra suðaustur af Fagradalsfjalli.
Sigríður segir starfsmenn Veðurstofunnar fylgjast vel með framvindu mála á Reykjanesskaga og mælum á svæðinu.
Hlusta má á viðtalið við Sigríði í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð.